133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs til að vekja athygli á mjög alvarlegu ástandi sem er að skapast í atvinnumálum á Ísafirði og vek athygli á því líka að það virðist vera víðar á landinu sem ástandið er orðið alvarlegt, eins og sjá má á ályktun sem við þingmenn fengum í síðustu viku frá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, þar sem skorað var á stjórnvöld að grípa til sértækra aðgerða í atvinnu- og menntamálum. Staðan á Vestfjörðum er ekki síður alvarleg en á Norðurlandi vestra, ef ekki alvarlegri. Fólki þar hefur fækkað um 21% á síðustu 12 árum og tekjur þar hafa lækkað sem hlutfall af tekjum á höfuðborgarsvæðinu niður í það að vera 18% undir meðaltalinu.

Tilkynning um lokun Marels í síðustu viku var reiðarslag fyrir Ísfirðinga vegna þess að þarna er um að ræða leiðandi fyrirtæki í hátækni. Ástæðan sem gefin er upp fyrir lokuninni er sú að staðurinn sé of afskekktur og ekki sé nægilegt framboð af menntuðu fólki. Ríkisstjórnin ber auðvitað ekki ábyrgð á gerðum einstakra fyrirtækja en hún ber ábyrgð á þeim aðstæðum sem fyrirtækjum eru sköpuð til að reka starfsemi sína um landið hvort heldur á Ísafirði eða annars staðar. Ég vil því kalla eftir því, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin bregðist við þeirri stöðu sem orðin er ljós bæði á Ísafirði og víðar og bendi í fyrsta lagi á þörfina á að lækka flutningskostnað, en flutningskostnaður gerir atvinnurekstri mjög erfitt fyrir á landsbyggðinni og kannski erfiðast á Ísafirði miðað við aðra staði.

Í öðru lagi þarf að verða átak í menntun á því svæði, bæði iðnmenntun og ríkisstjórnin þarf að láta af andstöðu sinni við stofnun háskóla á Ísafirði.

Ég hafði, virðulegur forseti, talað um það við hæstv. iðnaðarráðherra fyrir helgina og fengið samþykki hans fyrir því að ræða þetta mál í dag en ég sé að hann er fjarverandi og hæstv. forsætisráðherra sýndi málinu þá virðingu að hann gekk úr salnum.