133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:10]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það fer ekki á milli mála að lokun Marels á Ísafirði er heilmikið áfall, fyrst og fremst fyrir það starfsfólk sem þar hefur unnið, margir hverjir um langa hríð, og fjölskyldur þeirra og ekki síður fyrir samfélagið í heild. Fyrirtækið hefur verið eitt af djásnum í atvinnulífi Ísafjarðar og mjög mikilvægt. Við höfðum bundið miklar vonir við að geta byggt á því frekari atvinnusköpun og jafnvel sókn í menntamálum og þess vegna er þetta heilmikið áfall fyrir okkur. Það er alveg rétt sem bæjarstjórinn á Ísafirði, Halldór Halldórsson, hefur vakið athygli á því að með þessari ákvörðun er sú hætta fyrir hendi að við séum að missa úr bænum mikla verkþekkingu sem þar hefur verið að byggjast upp á þessu sérhæfða sviði á mörgum áratugum. Það er hins vegar alveg ljóst mál að þessi ákvörðun fyrirtækisins er ekki byggð á einhverjum séríslenskum aðstæðum. Í rökstuðningi fyrirtækisins er vísað í að verið sé að draga úr starfsemi mjög víða um heiminn og því miður hefur þessi ákvörðun verið tekin á Ísafirði. Verið er að draga úr starfsemi á vegum Marels þar sem eru evrusvæði og dollarasvæði, hávaxtarsvæði og lágvaxtarsvæði. Við sjáum að þarna er ákvörðun sem tekur til mjög margra fyrirtækja sem starfa við margvíslegar aðstæður.

Fram undan er að reyna að vinna sig út úr þessum vanda sem er gríðarlega mikill. Ég held að engin ástæða sé til að reyna að draga úr því að þetta er alvarlegt mál og núna stöndum við frammi fyrir því að reyna að bregðast við því á einhvern hátt. Fyrirtækið tekur ákvörðunina á sínum (Gripið fram í.) forsendum og við stjórnmálamenn höfum ekki allt of mikið um það að segja. Við þurfum að átta okkur á því hvort hægt sé, eins og vakið hefur verið máls á, að einhver hluti af starfseminni, sem fram hefur farið á vegum Marels á Ísafirði, verði unninn á annarra vegum á því svæði, á Ísafirði. Það er eitthvað sem við þurfum að láta reyna á og ég held að bæði Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Ísafjarðarbær, Byggðastofnun og aðrir þeir sem koma að slíkum málum þurfi nú að hafa frumkvæði að því til að tryggja það að þetta áfall verði minna en efni standa ella til.