133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

þjónusta við alzheimersjúklinga -- atvinnumál á Ísafirði.

[15:23]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það þýðir lítið fyrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins að ryðja út úr sér einhverjum kosningaloforðum hérna. Þetta mál snýst um það hvort hæstv. heilbrigðisráðherra standi við loforð sem hún hefur gefið hópi sem hefur ákaflega litla möguleika á að verja sig.

Úr þessum stóli sagði hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr á þessum þingvetri að hún teldi sjálf að það þyrfti fjögur bráðarými fyrir minnissjúka. Hún sagðist mundu beita sér fyrir því. Ekkert hefur breyst síðan. Í dag er það eitt. Ástandið hefur sem sagt versnað. Það er það sem hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir ætti heldur að ræða um en að ryðja út úr sér einhverjum kosningaloforðum sem enginn tekur mark á.

Annað var það líka sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir tók upp, gjaldtaka gagnvart sjúklingi sem núna er vegna alzheimersjúkdóms á hjúkrunarstofnun. Það kemur í ljós að hæstv. ráðherra kemur hérna alveg eins og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir og segir: Það þýðir ekkert að vera að ræða þetta á grundvelli einstakra dæma.

Við erum ekki að ræða þetta á grundvelli einstakra dæma, heldur á grundvelli reglugerðar sem hæstv. ráðherra undirritaði 21. desember árið 2006, tók gildi árið 2007. Eftir hana er fólk rukkað um allt að 142 þús. kr. fyrir að vera á slíkri stofnun þó að ljóst sé að engin heimild sé fyrir því vegna þess að í þessu tilviki er sjúklingurinn undir 67 ára aldri.

Og spurningin er bara þessi: Vissi hæstv. ráðherra ekki hvað hún var að undirrita? Vissi hún ekki að hún var að þrengja þarna verulega að hag fólks sem á mjög erfitt?

Svo kemur hæstv. ráðherra og segir að hún vilji ekki ræða einstök dæmi. Hún skal gjöra svo vel að koma hingað og ræða þær reglugerðir sem hún hefur skrifað undir sem í þessu tilviki hafa verulega skert kjör þessa fólks sem við ættum öll að sammælast um að hjálpa. (Forseti hringir.)