133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:27]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. forseta að þingmenn eiga ekki að grípa fram í fyrir hæstv. forseta og aldrei mundi mér t.d. koma til hugar að gera slíkt. Ég tel að hæstv. forseti hafi að því leytinu til staðið sig óaðfinnanlega við fundarstjórn gagnvart þessari litlu ræðu hv. þingmanns áðan.

Hins vegar er það þannig að við erum hér komin á síðasta sprett þingsins og það mundi greiða fyrir þingstörfum ef hæstv. ráðherrar mundu svara þeim fyrirspurnum sem fyrir þá eru lagðar.

Í þessu tilviki, frú forseti, var einungis um það að ræða að hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir taldi að hæstv. ráðherra framfylgdi með röngum hætti því valdi sem henni er falið af þjóðinni. Það er fullkomlega eðlilegt að hv. þingmaður taki það hér upp til að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna. Sömuleiðis væri fullkomlega eðlilegt að hæstv. forseti hlutaðist til um að hæstv. ráðherrar, sem eru krafðir sagna um alvarleg mál af þessu tagi þar sem þrengdur er hagur fólks sem ekki getur varið sig, svöruðu. Það kynni að greiða fyrir gangi þingsins á síðasta sprettinum.

Þetta var nú allt sem ég vildi segja, frú forseti, og ég vona að hæstv. forseti virði mér til vorkunnar að ég kem hér upp til þess af veikum mætti að leiðbeina henni sem ég veit auðvitað að er ekki mitt hlutverk.