133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er mjög nauðsynlegt að geta rætt undir liðnum sem heitir störf þingsins en það er ekki heppilegt að hann fari fram með þeim hætti sem hann hefur t.d. farið fram í dag, að hér tali annar hver maður um hver sitt málið.

Ég tel að forseti geti vel stjórnað því, og þingmenn sameinast um það, að um það mál sem fyrst er upp borið verði rætt á undan máli sem aðrir vilja ræða. Vilji menn biðja um orðið til að ræða annað mál eigi þeir að koma því til forseta að þeir vilji ræða annað mál. Þá hefst umræða um það mál á eftir því máli sem fyrr er rætt.

Sá þingmaður sem fyrstur bað um orðið ætti að fá að ræða það mál sem honum er hugleikið og aðrir en þeir sem hafa þá beðið um orðið á undan honum ættu ekki að komast að.

Ég tel mikilvægt að forseti taki á þessu máli, það verði rætt til að koma skikki á þessa umræðu því að það er mjög vandræðalegt, og hallærislegt bara, að halda hér umræðum uppi um tvö eða þrjú mál í einu í ræðustól Alþingis.