133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:34]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil mælast til þess við forseta að hún ræði við þingmenn um að hafi þeir fyrirspurnir fram að færa til ráðherra nýti þeir sér ákvæði þingskapa um að bera fram fyrirspurnir sem heimilt er að gera, bæði skriflega og munnlega. Það stendur hvergi í þingsköpum að umræður um störf þingsins eigi að breytast í fyrirspurnatíma þar sem þingmaður kemur upp og ber fram fyrirspurnir og ráðherra kemur síðan með undirbúin svör. Ég tel að það sé ekki rétt notkun á ákvæðum þingskapa eins og menn hafa praktíserað þetta á þessu kjörtímabili. Ég mælist til þess við forseta að hún reyni að stjórna hug þingmanna í þessum efnum til að nýta þennan lið um störf þingsins á þann veg að fyrirspurnir verði ekki mikið þar á dagskrá þó að það kunni annars að vera skynsamlegt og nauðsynlegt að bera þær fram.

Hitt vil ég segja að forseti getur ekki krafist þess af þingmönnum að þeir ræði tiltekin mál, þeir hafa rétt til að kveðja sér hljóðs og taka upp það mál sem þeir kjósa undir þessum lið. Hv. þm. Jóhann Ársælsson verður einfaldlega að una því meðan þingsköp eru svona, þingsköp eru lög og menn eiga að fara að lögum og forseti hefur ekki við neitt annað að styðjast en að fara að lögum í fundarstjórn sinni. Mér finnst til nokkurs ætlast að mælast til þess við forseta að hún setji einhverjar þrengri skorður en lög mæla fyrir um í þessu efni.

Ég hafði gert forseta viðvart um það síðastliðinn föstudag að ég mundi taka atvinnumál á Ísafirði upp hér í dag, annaðhvort undir liðnum störf þingsins eða með ósk um utandagskrárumræðu sem ég bar þá fram formlega. Mér voru færð þau tíðindi áðan að ekki hefði verið orðið við beiðni minni um utandagskrárumræðu um þetta mál af einhverjum óljósum ástæðum sem ég er ekki alveg búinn að tileinka mér, enda svo nýlegur í kaffibandalaginu eins og hér hefur verið minnst á. Mér skilst að hér hafi menn sem koma dálítið að stjórn þingsins búið sér til einhverjar reglur sem taki við þegar lögum sleppir og eigi að binda menn eins og lög. Ég kannast ekki við að lagasetningarvald þingsins hafi verið flutt frá þinginu til einhverra óskilgreindra manna sem geti búið til einhverjar reglur um það að menn ræði ekki atvinnumál á einstökum stöðum. Hvenær komst Alþingi að þeirri niðurstöðu að atvinnumál á einstökum stöðum, hvort sem það er á Siglufirði, Ísafirði, Vestmannaeyjum eða Reykjavík, séu ekki þess verðug að það megi bregðast við atburðum sem þar verða og taka þau upp hér í þinginu?