133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég á frekar von á því að þetta form muni verða nýtt áfram eins og það hefur verið nýtt, en ég tek hins vegar undir að hún er frekar hallærisleg, þessi „bland í poka“-umræða. Hér er oft verið að ræða tvö, þrjú mál í einu undir sama liðnum. Hér er búið að ræða um málefni hjúkrunarsjúklinga og atvinnuástand á Vestfjörðum og þetta eru ekki lík mál í eðli sínu.

Ég á frekar von á því, virðulegur forseti, að þetta form verði nýtt til hins ýtrasta á næstunni af því að við erum í aðdraganda kosninga og menn vilja auðvitað koma ýmsu á framfæri og það er oft þannig að það sem rætt er í upphafi þingfundar ratar beint í fjölmiðla. Ég á þess vegna von á að það muni frekar færast í aukana að við verðum með svona „bland í poka“-umræðu daglega í upphafi þingfundar.

Ég hef getað aflað mér upplýsinga á meðan á þessari umræðu stóð varðandi það sem rætt var áðan um yngri hjúkrunarsjúklinga. Það er þannig að yngri hjúkrunarsjúklingar (Gripið fram í.) eiga ekki að greiða. (Gripið fram í: Er þetta um fundarstjórn forseta?) Ég vil sérstaklega minnast á það vegna þess að …

(Forseti (SP): Hæstv. ráðherra á ekki að ræða efnislega um þetta mál heldur ræða um fundarstjórn forseta.)

Já, virðulegur forseti, ég hélt að það létti kannski forseta fundarstjórnina að upplýsa að Tryggingastofnun hefur líklega gert mistök varðandi þetta mál. Það verður þá leiðrétt af því að ekki á að rukka yngri hjúkrunarsjúklinga. Ég hélt að þetta mundi kannski létta aðeins stjórnina á fundinum að upplýsa þetta af því að mér gafst tími til að afla mér upplýsinga um það á milli umræðna að það er þannig.