133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

umræðuefni í athugasemdum.

[15:39]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ekki eins og að þetta form hafi ekki verið að þróast á undanförnum árum í þinginu og við þurfum auðvitað að halda því áfram. Ég veit ekki til þess að það standi neins staðar í þingsköpum að það eigi að koma því til forseta að maður ætli að biðja um orðið við upphaf umræðu. Það er t.d. ekki þannig að þeir eigi einhvern forgang í sjálfu sér sem hafa sent einhver skilaboð til hæstv. forseta um að þeir ætli að taka orðið í upphafi. Það hefur líka verið þannig að hæstv. forseti hefur ítrekað í svona umræðum gefið ráðherrum orðið í lok umræðunnar. Ég hef lúmskan grun um það, vegna þess að ég hef beðið um orðið við slíka umræðu en þá hafa ráðherrar verið teknir fram fyrir í þeirri umræðu. Mér finnst það ekki eiga við í þessari umræðu að þannig sé að málum staðið ef þetta á að vera frjálst og allir standi jafnir gagnvart því að fá orðið.

Ég er hins vegar á þeirri skoðun að heppilegt sé að menn reyni að nýta þetta form og finna leiðir til að nýta það sem best. Það var erindi mitt við hæstv. forseta, ekki að ég ætlaðist til að hún færi að taka á málum við einstaka umræðu, heldur að hæstv. forseti beitti sér fyrir því að menn ræddu þessi mál og veltu því fyrir sér hvort ekki væri hægt að koma þeim betur fyrir þannig að ekki færi fram umræða með þessum hætti.

Ég bað um orðið strax og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafði hafið máls á málefnum Vestfjarða. Ég átti enga möguleika á að komast í umræðuna vegna þess að önnur umræða var hafin og menn voru búnir að biðja um orðið um allan sal. Það er auðvitað mjög óheppilegt að þetta skuli vera svona en þetta voru að mínu viti umræður um fundarstjórn forseta og tilmæli til hennar um að hafa áhrif á það hvernig þessar umræður fari fram.