133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[16:06]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um öryggismálasafnið og segir að nauðsynlegt sé að ná því í gegnum þingið hið fyrsta til þess að hægt sé að ná til grafar öllum kurlum sem tengjast hinum umdeildu hlerunum sem áttu sér stað á því tímabili sem skýrslan, hin svokallaða kaldastríðsskýrsla, nær til. Ég er algjörlega annarrar skoðunar. Ég tel að eina leiðin til að hægt sé að hreinsa það mál upp sé að Alþingi samþykki lög sem svipta burtu trúnaðarskyldu og refsingum gagnvart þeim sem hafa hugsanlega starfað að einhvers konar ólöglegum hlerunum eða eftirliti á síðustu áratugum. Það er eina leiðin sem hægt er að nota til að draga það allt fram í dagsljósið sem hefur gerst. Þá leið fóru Norðmenn og þessi leið hefur líka verið farin með öðrum hætti í Danmörku. Nú skal ég að vísu fúslega gangast við því að ég tel að umfang starfseminnar hafi verið mun minna hér á landi en í þessum tveimur löndum.

Hins vegar er það jafnljóst að margt bendir til þess að ekki sé allt komið fram í dagsljósið sem tengist þessu pólitíska ólöglega eftirliti. Hins vegar er ekki að undra að Sjálfstæðisflokkurinn er hræddur við málið og gerir allt sem hann getur til að reyna að sópa því undir teppið og leggja það til endanlegrar hvílu. Þegar við ræddum skýrsluna sem kennd er við kaldastríðsnefndina fyrir nokkrum vikum var, að því er virtist, fyrst og fremst markmið Sjálfstæðisflokksins að nota niðurstöður þeirrar skýrslu með ákaflega frjálslegum túlkunum til að halda því fram að hún gæfi til kynna að það væri ekkert meira sem væri að upplýsa í málinu. Svo er nú aldeilis ekki, frú forseti. Þór Whitehead sagnfræðingur skrifaði um það merkar greinar þar sem hann upplýsti að hér hefði um langt skeið verið starfandi það sem hann kallaði „strangleynilega öryggisþjónustu“. Þetta er ekkert annað en eins konar leynilögregla sem hafði það eitt að hlutverki að fylgjast með mönnum sem höfðu skoðanir sem ekki voru æskilegar að mati þeirra sem fóru með valdið í ríkinu. Þær niðurstöður sem liggja fyrir benda allar til þess að þeir einu sem fylgst var með hafi verið róttækir vinstri menn, sósíalistar og kommúnistar sem höfðu uppi andstöðu við ríkjandi stjórnmálakerfi og voru á stundum, a.m.k. sumir þar í hópi, hættulegustu og skæðustu pólitísku andstæðingar sjálfstæðismanna sem fóru með völd. Það er í reynd ótrúlegt að hugsa til þess að forustumenn Sjálfstæðisflokksins, sem voru ráðherrar og gegndu mjög miklum trúnaðarstörfum innan ríkisins, hafi bókstaflega talað heimilað og jafnvel fyrirskipað í sumum tilvikum að það yrði hleraður sími og fylgst með þeim mönnum sem sátu með þeim hér í þessum sölum og voru pólitískir andstæðingar þeirra.

Þær skýringar sem hafa verið gefnar í umræðum síðustu mánaða hafa einkum og sér í lagi lotið að því að þessir menn hafi verið hættulegir lýðræðinu. Látið hefur verið að því liggja að þeir kynnu jafnvel sumir hverjir að hafa þjálfast í vopnabúnaði og settur er af stað sögusveimur, fyrir því enginn flugufótur, um að þeir hafi jafnvel haft yfir að ráða einhvers konar vopnasafni. Þetta er allt saman hægt að lesa í greinum eftir hirð sagnfræðinga Sjálfstæðisflokksins og hlusta á í máli sumra þeirra. Ég spyr sjálfan mig, frú forseti: Þurfum við ekki sem njótum þess trúnaðar að vera kjörin til að sitja á hinu háa Alþingi að grafast fyrir um það hverjar voru raunverulegar ástæður þess að forustumenn Sjálfstæðisflokksins tóku að sér það sérkennilega hlutverk að fyrirskipa eftirlit og rannsókn með mönnum eins og Hannibal Valdimarssyni? Það er þó maður sem enginn getur og enginn hefur, ekki heldur úr röðum Sjálfstæðisflokksins, hvorki eldri né hinna yngri Tyrkja þeirra, haldið fram að væri með einhverjum hætti nokkuð annað en lýðræðissinnaður jafnaðarmaður. Enginn hefur nokkru sinni leitt getum að því að Hannibal Valdimarsson hafi verið sporgöngumaður erlends stórveldis eða með einhverjum hætti viljað kollvarpa því lýðræðisskipulagi sem hefur ríkt á Íslandi.

Þess vegna rímar það ekki þegar maður sér fyrir framan sig þá staðreynd að maður á borð við hann, sem var alþingismaður, ráðherra, ritstjóri blaðs og forseti Alþýðusambands Íslands, var hleraður samkvæmt beinni heimild utanríkisráðherra lýðveldisins á þeim tíma. Hvað olli því? Þurfum við ekki og höfum við ekki siðferðislega skyldu til þess að grafast fyrir um það? Getum við lagt það til hvíldar á grundvelli skýrslu sem hafði engin föng og engin tæki til að grafa fram staðreyndir sem þetta varðar? Mér finnst að við sem erum sporgöngumenn þessara manna höfum móralska skyldu til að leiða það fram hvað olli því. Er hægt að velta því fyrir sér hvort það kynni að vera vegna þess að sá ágæti stjórnmálamaður var á þeim tíma í hópi skæðustu stjórnarandstæðinga og uppi voru viðkvæm mál sem vörðuðu landhelgisstríðið. Mikið er það undarleg tilviljun, frú forseti, að á sama tíma og þau mál eru öll í deiglu og menn eru að móta afstöðu og viðhorf flokka skuli Sjálfstæðisflokkurinn láta hlera slíkan mann. Það er alveg með ólíkindum. Eftir hverju var verið að slægjast? Enginn getur haldið því fram að hann hafi ætlað með einhverjum hætti að beita valdi gegn því Alþingi sem hann sjálfur sat á. Voru menn kannski að slægjast eftir skoðunum hans á landhelgisstríðinu og landhelgisdeilunni og afstöðu hans hreyfingar? Þetta eru hlutir sem þarf að skoða. (Gripið fram í.) Hannibal Valdimarsson sem segja má að sé fjarskyldur pólitískur ái okkar beggja þó að sá sem hér stendur sé hugsanlega í örlítið öðrum túnskika en sá sem kallaði fram í, hv. þm. Ögmundur Jónasson. En þetta finnst mér skipta miklu máli.

Ég vil segja, frú forseti, að skýrslan sem liggur hér frammi sem aðalfylgigagn frumvarpsins gefur fullt tilefni til að ræða þetta. Þar koma fram ákveðnar niðurstöður sem ég í sjálfu sér ætla ekki að deila um en varða málið. Þar er því t.d. haldið fram og slegið föstu að á grundvelli gagna sem skýrsluhöfundar öfluðu sér hafi ekki verið nokkur leið fyrir þá sem voru starfandi í því sem Þór Whitehead kallaði hina strangleynilegu öryggisþjónustu að hlera síma. Af hverju? Af því að það þurfti atbeina starfsmanna Pósts og síma.

Svo, frú forseti, les maður skýrsluna og lýsingu á því hvernig hægt var að tengja í box sem var í garðinum fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu 72. Maður ber það og les það í ljósi þeirra fullyrðinga sem fram koma í sömu skýrslu, að þeir menn sem störfuðu að öryggiseftirlitinu voru þjálfaðir af erlendum leyniþjónustum. Þeir voru svo góðir í sínu starfi og sinntu þeirri þjálfun svo vel að það er ekki langt síðan að íslenskur ljósvakamiðill upplýsti um það að fundist hefðu skjöl á þessum vetri þar sem borið var sérstakt lof á þessa íslensku leyniþjónustumenn fyrir hversu hæfir þeir væru í starfi. Dettur nokkrum lifandi manni í hug að fyrir slíkum mönnum, sem eru þjálfaðir hjá vestur-þýsku leyniþjónustunni, hjá CIA og hugsanlega fleiri leyniþjónustum, hafi vafist að tengja einn síma? Þetta er svo hlægilegt að það er hreinn barnaskapur.

Að því leyti til vil ég halda þessu til haga, af því þetta er undir í umræðunni sem fylgiskjal, að það er algerlega fráleitt að ætla að slá því föstu, eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert í umræðunni, að þar með sé búið að klára þetta mál. Að sjálfsögðu ekki.

Ef t.d. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hefði verið uppi svolítið fyrr, nokkrum áratugum fyrr, og hann hefði kannski kosið sér annan starfsvettvang en lögfræði og stjórnmál og hugsanlega, sem hann á þó örugglega ekki eðli til, viljað fylgjast með einhverjum samlöndum sínum í launuðu starfi, heldur, frú forseti, að nokkur leið væri til þess að jafnvel þó hann væri kominn á efri ár og byggi yfir þessari þekkingu sem hugsanlega hefði þá leitt af sér fyrr á æviskeiðinu eins konar lögbrot, að hann mundi stíga fram iðrunarfullur, eins og hann á þó eðli til stundum þegar hann gerir rangt af sér, og játa þetta? Að sjálfsögðu ekki. Hvers vegna? Vegna þess að hann hefði átt yfir höfði sér töluvert þungar refsingar.

Ég segi það bara alveg klárt og kvitt, frú forseti, að ég tel að þær upplýsingar sem koma fram í skýrslunni, bendi fremur til þess að það hafi verið ýkja létt verk fyrir þjálfaða menn á þessu sviði að framkvæma slíkar hleranir án þess að nokkur yrði var við og án atbeina Pósts og síma.

Ég tel þess vegna, frú forseti, að það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur áður sagt í umræðu um þessi mál, að hérna sé sýnt fram á það svart á hvítu að ekkert pólitískt eftirlit hafi verið með Íslendingum fyrr á árum umfram það sem segir í skýrslunni, sé fullkomlega rangt.

Að öðru leyti, frú forseti, vil ég segja, eins og ég sagði í umræðu strax um skýrslu kaldastríðsnefndarinnar, að ég tel að allar tillögur hennar séu prýðilegar. Ég leggst síður en svo gegn þessu öryggismálasafni og ég held að þarft sé að setja upp sérstakt safn sem varðveitir allar skráðar heimildir og öll skjöl sem tengjast þessum málum. En nú er það svo að við vitum að þeir menn sem þarna fóru höndum um voru svo hræddir við sinn ólögmæta verknað að þeir eyddu öllum skjölum. Það sem hugsanlega var markverðast er horfið. Það var brennt á báli.

Leitt hefur verið í ljós núna að öll skjölin sem var að finna í mörgum skápum í sérstöku lokuðu herbergi hinnar strangleynilegu öryggisþjónustu, sem Þór Whitehead kallar svo, obbinn af þeim var brenndur af því að þeir sem báru ábyrgð á þeim voru hræddir við hvað þar væri að finna. Mig uggir nú að sumir hv. þingmenn glottu ekki jafndjarflega og þeir gera í dag ef þessi skjöl væru enn á dögum einhvers staðar. (Gripið fram í.) Það skiptir mjög miklu máli í umræðunni, frú forseti, að það sé gert alveg ljóst og í gadda slegið að menn hafi aðgang að þeim upplýsingum sem þó liggja fyrir. Væntanlega eiga sumar og auknar heimildir eftir að koma í ljós.

Það sem nefndinni var falið á sínum tíma var fyrst og fremst að setja reglur um með hvaða hætti fræðimenn ættu að hafa aðgang að þeim skjölum. Ég var hins vegar í hópi þeirra sem áttu kost á því að fylgjast með starfi nefndarinnar, þ.e. við áttum reglulega fundi, formenn þingflokka ásamt forseta þingsins, með þeim ágætu mönnum sem unnu þetta starf. Það bæði gladdi mig og ég studdi það þegar í framvindu þeirrar vinnu kom í ljós að nefndin taldi að réttast væri að ganga jafnvel enn lengra varðandi opnun en kannski mætti með strangasta móti segja að hún hefði umboð til, miðað við þá ályktun sem hér var samþykkt.

Þess vegna fagna ég því að í fyrsta lagi er opnað fyrir aðgang almennings að þeim skjölum sem verða í öryggismálasafni Þjóðskjalasafns Íslands. Þær reglur sem þarna eru settar af hálfu nefndarinnar og hæstv. menntamálaráðherra leggur fram í frumvarpsformi tel ég að séu vel viðunandi og í sumum tilvikum meira en það. Almenningur mun eiga kost á að geta farið og skoðað þetta en þó þannig að persónulegar viðkvæmar upplýsingar séu ekki veittar.

Það sem skiptir líka ákaflega miklu máli er að einstaklingar geta leitað upplýsinga um hvort til séu skráðar upplýsingar um þá. Sé svo eiga þeir kost á að sjá þær. Þetta eru grundvallaratriði að því er varðar rétt almennings, bæði til þess að vita hvað fór fram, hvers eðlis það var, og síðast en ekki síst þeirra sem voru andlag rannsóknanna á hverjum tíma.

Þar sem mér finnst þó að nefndarmenn hafi sýnt mesta hugkvæmni og lipurð er varðandi túlkun þeirra á því hvað er fræðimaður. Umboð þeirra var að setja reglur um hvernig fræðimenn hefðu aðgang að þeim gögnum sem yrði að finna í öryggismálasafninu. Þá koma menn óhjákvæmilega að þeirri spurningu: Hvernig ber að skilgreina fræðimann?

Íslenskt samfélag er sérstakt að því leyti til að hér hefur verið mikil framleiðsla þekkingar og söfnun þekkingar af hálfu manna sem við í samfélagi okkar köllum fræðimenn en hafa hins vegar ekki gengist undir þá skýrslu fræðimennsku sem felst í að ljúka prófum við menntastofnanir eða skila viðurkenndum stórum ritgerðum. En svona er eðli hins íslenska fræðasamfélags. Í gegnum tímann má segja að íslenskur almúgi hafi alltaf framleitt fræðimenn sem sumir hafa öldum síðar uppskorið virðingu og aðdáun fyrir þau verk sem þeir hafa unnið. Þess vegna fagna ég því alveg sérstaklega að skilgreining nefndarinnar á hver teljast skuli fræðimaður er mjög víð. Hún felur það í reynd í sér að viðkomandi einstaklingur þarf einungis að hafa skrifað eina grein sem skilgreina má sem fræðigrein um málið og ekki einu sinni í ritrýndum tímaritum og sömuleiðis þarf hann að leggja fram rannsóknaráætlun. Þetta er ákaflega rúmt túlkað. Ég tel að það eigi að vera svona. Ég tel að allir þeir sem telja að þeir séu að vinna einhvers konar rannsóknarvinnu, sem er þeim til gagns eða öðrum, eigi að hafa aðgang að þessum gögnum og því fagna ég því öllu saman.

Mig langar, ef hæstv. menntamálaráðherra tekur til máls aftur, að inna hana eftir því hvað hún telji það muni kosta að skoða, skrá og koma til vörslu þeim gögnum sem er að finna í umsjón utanríkisráðuneytisins. Fram hefur komið í máli hennar og í umræðum áður að ljóst er að þar er um að ræða gríðarlegt magn. Sömuleiðis er enn að finna töluvert magn af gögnum hjá Pósti og síma sem enn hafa ekki verið afhent Þjóðskjalasafni og sem á eftir að leita í að heimildum sem tengjast þessum málum. Fram kom í samtölum okkar þingflokksformanna við kaldastríðsnefndarmennina að þetta gæti tekið mörg ár og orðið mjög dýrt. Ekki sýti ég það. Þetta er þarft. Partur af því að hreinsa upp þennan heldur skuggalega kafla sem Sjálfstæðisflokkurinn fyrst og fremst ber ábyrgð á í sögu þjóðar okkar. Til þess þarf fé. Ég vildi gjarnan vita hvort menn hefðu slegið á það, komið því á einhvern kvarða.

Hitt vil ég svo að lokum segja, frú forseti, og ítreka, að ég tel að saga hins pólitíska eftirlits á þessu tímabili sé ekki komin fram í dagsljósið. Við höfum t.d. í þessum sölum verið að leita eftir því að menn sköpuðu einhvers konar tæki og aðstöðu til að kanna umfang hins pólitíska eftirlits sem haft var í frammi af hálfu stjórnvalda. Ég nefni t.d. stjórnmálaskoðanir þeirra sem sóttu um, fengu og eftir atvikum fengu ekki, atvinnu hjá varnarliðinu á Keflavíkursvæðinu.

Í því tilviki vil ég líka nefna það til sögu að einhvers staðar í stjórnkerfinu hljóta að vera menn sem eru að skoða hæfni og færni þeirra sem af okkar hálfu veljast til trúnaðarstarfa hjá samtökum sem við tengjumst, eins og Atlantshafsbandalaginu. Ég rifja það upp að lögreglustjórinn þáverandi, Böðvar Bragason, upplýsti í Fréttablaðinu undir lok síðasta árs — af því hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er minnugur, þá man hann vafalaust að það var 7. nóvember því hann er eftirtektarsamur um þessi efni — að lögreglan sæi um að gefa út öryggisvottorð um þá sem væru á leið til starfa fyrir NATO. Ég tel nú að óhugsandi sé ef slík öryggisvottorð eru gefin út að þá sé engin rannsókn sem liggi þar að baki. Ef menn veita aðgang með þeim hætti þar sem rannsókn fer fram að innstu leyndardómum NATO hljóta þeir líka að vera þess umkomnir að veita hann ekki. Með öðrum orðum, fyrir mér vakir þessi spurning: Hvernig var háttað samskiptum stjórnvalda og þeirra sem sinntu þeim rannsóknum? Um þetta er bara ekkert vitað. Þetta eru pólitískar rannsóknir sem hljóta að fara fram enn þann dag í dag.

Þetta nota ég sem röksemd, frú forseti, til þess í fyrsta lagi að slá því föstu að það sé langt frá því að búið sé að draga fram í dagsljósið alla þá starfsemi sem hefur farið fram og fer hugsanlega fram enn þá án þess að nokkurt lýðræðislegt eftirlit sé með henni. Í öðru lagi vil ég halda því til haga að þó að það sé sjálfsagt að styðja lungann úr þessu frumvarpi þá er af og frá að halda því fram að með því að setja svona safn af stað, sé með einhverjum hætti búið að kvitta fyrir þetta tímabil. Eina leiðin til þess er norska leiðin. Sakaruppgjöf þeirra sem að þessum málum hafa komið fram á okkar dag. Það er ekkert annað sem kemur til greina. Þetta frumvarp er einungis lítið skref á þeirri leið. En leiðin og förin um hana bíður að öllum líkindum næstu ríkisstjórnar. En ég get huggað hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson og aðra að sú bið (Forseti hringir.) verður ekki löng.