133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[16:40]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski ekki hægt að kveða upp úr um hvaða lög voru hugsanlega brotin á þessum tíma. En ég held að það sé heldur langsótt að halda því fram að menn hafi gerst sekir um landráð. (ÖS: Ég spurði þig, ég var ekki að halda því fram.) Ég leyfi mér að halda því fram að hafi lög verið brotin sé hugsanleg refsiábyrgð fyrir löngu fyrnd. Engin ástæða er til þess að vera að taka afstöðu til þess að fara sömu leið og Norðmenn gerðu.

En það er ágætt að það kom fram hér í umræðunni hjá hv. þingmanni, af því honum var mjög tamt í ræðu sinni að tala um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins, að það voru ekki sjálfstæðismenn sem hófu þessa eftirgrennslan heldur einmitt menn úr röðum Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins sem hv. þingmaður var einu sinni í. Það þurfti að toga þær staðreyndir út úr hv. þingmanni.

Ef ég skil hv. þingmann rétt telur hann að þetta frumvarp sé ekki nóg. Ekki sé gengið nógu langt. Hvað vill hv. þingmaður gera? Ég hlýt að spyrja hann t.d. út í ákvæði frumvarpsins um aðgang fræðimanna að öryggismálefnum. Þar kemur fram að óheimilt sé að skýra frá eða miðla á einhvern annan hátt upplýsingum sem kunna að vera persónugreinanlegar.

Er hv. þingmaður þeirrar skoðunar að við eigum að breyta þessum ákvæðum á þann veg að við fáum öll spilin upp á borðið? Að farið verði yfir það hvaða menn það voru sem störfuðu fyrir þessa svokölluðu leyniþjónustu og ekki síður um hverja var grafist fyrir? Hverjir það voru sem voru á mála hjá leyniþjónustum Sovétríkjanna og Austur-Þýskalands? Ef til vill væri ástæða til þess (Forseti hringir.) að gera það og þá er spurningin: Hverjir voru hugsanlega (Forseti hringir.) uppvísir að landráðum?