133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:05]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Umræðan um þetta frumvarp er því marki brennd að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala eins og brotin hafi verið mannréttindi á borgurum vegna einhliða ákvarðana ráðamanna á sínum tíma, að mannréttindafrömuðir og andófsmenn hafi orðið fyrir órétti. Reyndar halda ýmsir sagnfræðingar því fram að barátta þessara ágætu manna hafi snúið að því að umbylta stjórnskipuninni, eins alvarlegt og það er. En gott og vel, við getum deilt um það. Umræðan er á þann veg, m.a. hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, að um einhliða ákvarðanir ráðamanna hafi verið að ræða, pólitískar njósnir til að ná sér niðri á andstæðingum stjórnvalda á hverjum tíma.

Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Skiptir ekki máli í þessari umræðu, af því að hv. þingmaður nefndi það ekki í ræðu sinni, svo að ég tæki eftir, að allar þessar hleranir fóru fram að undangengnum dómsúrskurðum? Það voru dómstólar sem heimiluðu hleranirnar á grundvelli gagna sem voru lögð fram. Er hv. þingmaður að halda því fram að dómstólar þess tímabils sem við erum að fjalla um hafi tekið þátt í þessu pólitíska samsæri, þeim pólitísku njósnum sem hv. þingmaður heldur fram að hafi átt sér stað? Það er ekki hægt að draga aðrar ályktanir.