133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka það að ég tel að brotin hafi verið mannréttindi á fólki sem stóð í lýðræðislegri baráttu gegn því að við yrðum dregin inn í hernaðarbandalagið NATO, í baráttu gegn hernaðaraðgerðum Bandaríkjamanna, gegn fasistastjórninni í Grikklandi og auðvitað bendir flest til að pólitískar njósnir hafi farið fram 1961 í tengslum við landhelgisdeiluna.

Það voru ekki mín orð að segja að þetta hefði verið gert til að ná sér niðri á andstæðingum ráðandi afla … (Gripið fram í.) ég sagði það ekki. Ég gekk hins vegar nokkuð langt þegar ég talaði um atburðina í mars og byrjun apríl 1949. Ég er búinn að lesa þær yfirheyrslur, yfir þeim mönnum sem voru sviptir kosningarrétti þá og hef hlustað af athygli á þá sem hafa haldið því fram að það hafi verið borin fram ljúgvitni í þeim málaferlum. Ég ætla ekki að setja allar hleranirnar undir einn hatt. Ég held að í mörgum tilvikum hafi menn verið að hlera til að reyna að átta sig á því hvað vekti fyrir mönnum sem voru að skipuleggja mótmælafundi og annað af því tagi. En við erum að tala um hleranir hjá þingmönnum í sumum tilvikum, hjá Alþýðusambandi Íslands, hjá blöðum, hjá blaðamönnum o.s.frv.

Það hvort dómstólarnir hafi tekið þátt í þessu, vegna þess að það hafi alltaf verið dómsúrskurðir, eru hlutir sem ég á eftir að fara yfir nánar. En ég man ekki betur en þess séu dæmi að það hafi verið hleranir án dómsúrskurða. Þá hefur verið vísað í hleranir, reyndar af öðru tilefni fyrir þennan tíma, á 4. áratugnum og síðan eitthvað í tengslum við atburðina 1949.