133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:20]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að í síðustu orðum hv. þingmanns hafi falist ákveðinn misskilningur um það hvort eðlilegt hafi verið hjá dómstólum þess tíma að heimila að hlera síma tiltekinna einstaklinga eða ekki vegna þess að enginn hafi verið dæmdur. Það að enginn hafi verið dæmdur á grundvelli þess sem fram kom í þeim hlerunum segir ekkert til um það hvort rétt hafi verið af hálfu dómstóla að heimila hleranir eða ekki.

Í dag er það þannig, veit ég, að lögreglan fær heimildir til að hlera einstaklinga sem síðar eru ekki dæmdir fyrir brot á einhverjum tilteknum lögum. Það er einfaldlega þannig að þegar, svo dæmi sé tekið, lögreglan hefur til rannsóknar t.d. viðamikil fíkniefnabrot þá leitar hún heimilda til hlerana hjá hugsanlega hópi manna, en hleranirnar þurfa ekki endilega að leiða til þess að allir sem þurfa að sæta þeim séu ákærðir fyrir brot á lögum, hvað þá dæmdir. Það eitt og sér, að enginn hafi verið dæmdur á grundvelli þessara hlerana, er ekki til sönnunar um það að úrskurðir um hleranir hafi verið fengnir á einhverjum vafasömum grundvelli eða úrskurðir dómstóla þess tíma hafi verið eitthvað vafasamir. Það held ég að liggi alveg í augum uppi. (Gripið fram í.)