133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:31]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu sem hefur verið allrar athygli virði. Það er rétt að undirstrika að tilgangurinn með frumvarpinu er að uppfylla eða framfylgja tillögum frá þverpólitískri nefnd sem skipuð var í kjölfar þingsályktunar frá Alþingi. Við höfum gert okkur far um að hraða þessum tillögum nefndarinnar inn í þingið til þess einmitt að gera það sem mikilvægt er, að upplýsa þjóðina um söguna.

Hv. þm. Hjálmar Árnason gat um það að við ættum að læra af mistökunum. Það er hárrétt, við eigum að læra af þeim mistökum sem hafa verið gerð í gegnum tíðina en við eigum líka að sýna skilning á þeim athöfnum sem hefur þurft að framkvæma í gegnum tíðina í ljósi þess umhverfis og þeirra aðstæðna sem hafa verið uppi hverju sinni. Menn vita að aðstæður í dag eru allt aðrar en þær voru á tíma kalda stríðsins sem var eins og við vitum mjög sérstakur tími, það var óvenjulegur tími.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst það kristallast í málflutningi vinstri manna sem hafa talað í dag í þessu máli að það er skautað yfir hálfan og jafnvel meiri hluta sögunnar. Það er algerlega litið fram hjá því hvers konar umhverfi við bjuggum við á sínum tíma. Stóra málið eru auðvitað vonbrigðin sem koma fram í orðum hv. þingmanna, sérstaklega hv. þm. Ögmundar Jónassonar, um það sem kemur skýrlega fram í nefndinni sem skipuð var m.a. sagnfræðingum en það má ekki einu sinni ræða um að þetta sé sagnfræðileg niðurstaða heldur er sagt að þetta sé ekki sagnfræðileg niðurstaða, þetta sé bara einhvern veginn niðurstaða. Ég vil meina að þeir sem völdust í þessa nefnd séu mikilhæfir einstaklingar sem hafi afar faglega og yfirgripsmikla þekkingu, fræðilega þekkingu á því að leggja fram tillögur í þessu formi. Þetta eru Páll Hreinsson, Anna Agnarsdóttir, Helgi Bernódusson, Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður og Ómar H. Kristmundsson og þau segja m.a. að það sé margbúið að ítreka að það hafi alla tíð verið staðið svona að hlerun — og við vitum að hleranir áttu sér stað, það er ekkert að fela í því. Við verðum að átta okkur á því að ríkið hafði líka ákveðna hagsmuni að verja, m.a. öryggishagsmuni, og það er frekar umhugsunarefni ef ekki hefðu átt sér stað hleranir, ef Ísland eitt ríkja hefði ekki farið í það til að verja hagsmuni ríkisins. Það stendur hér svart á hvítu að lögreglan átti frumkvæðið að hlerunum, um annað er ókunnugt, og ávallt var kveðinn upp dómsúrskurður sem heimilaði hleranir. Það er afar ósmekklegt, frú forseti, að verða vitni að því í þinginu í dag hvernig hv. þingmenn allt að því að vega að ekki bara stjórnmálamönnum fyrri alda, það er engin nýlunda að svo sé gert, heldur ekki síður að dómstólum og dómurum fyrri ára, og svo hitt, sem ekki hefur verið rætt svo mikið um, að starfsmönnum Pósts og síma, því að lögreglan hafði ekki búnaðinn eða aðstöðuna til að hlera. Og hvert leitaði hún? Hún leitaði, eftir að hafa fengið dómsúrskurð, til starfsmanna Pósts og síma. Þetta er stór hópur sem hv. þingmaður er m.a. að ásaka um að taka þátt í ólöglegu athæfi eins og hann orðaði það, pólitískum njósnum. Þetta eru stór orð sem hv. þingmaður hefur haft hér í frammi. Ég ítreka að þetta var allt löglegt og þetta voru einstaklingsbundnar hleranir. Þær voru tilviljanakenndar oft og tíðum, að því er virðist, og það er reginmunur á því sem gerðist hér í svo litlum mæli — mér finnst það frekar umhugsunarefni hvað þetta var gert í litlum mæli — miðað við það sem gert var í Noregi. Þar var kerfisbundið eftirlit, þar var reglubundið eftirlit, ekki bara yfir ár heldur áratugi. Menn vita að umfangið þar var gríðarlegt. Hér á landi höfðu menn ekki burði til þess. Við höfðum ekki burði til þess að fara í slíkar hleranir í þeim mæli sem t.d. Norðmenn fóru í. Það er því um allt aðrar aðstæður að ræða hér.

Við vitum að hér var vísir að öryggisþjónustu sem m.a. var ætlað að sinna samstarfi við erlenda aðila. Þetta geta menn rakið allt í góðri grein sem menn hafa rætt, m.a. grein Þórs Whiteheads sem birt var í Þjóðmálum á síðasta ári. (Gripið fram í.) Já, það er alveg rétt, við höfum átt samskipti við Bandaríkin enda erum við bandamenn Bandaríkjanna. Við erum bandamenn NATO og við skömmumst okkar ekki fyrir það. Við tókum rétta afstöðu á þeim tíma sem hefur skilað okkur mikilli farsæld fyrir lýðræðisríki. En það er líka vitað og það hafa sagnfræðingar margsýnt og sannað að það var stór hópur manna sem starfaði hér frá KGB, sovésku leyniþjónustunni. Við vitum það. Við vitum líka að hér voru starfsmenn GRU, leyniþjónustu sovéska hersins, og það er bara skautað yfir það, menn minnast ekki einu orði á það. Þess vegna velti ég því fyrir mér, frú forseti, þegar menn koma hér upp og þylja að það verði að segja söguna, hvort þeir meini þá ekki nema hálfsannleikann. Aðkoma mín frá því að ég varð menntamálaráðherra og komst í tæri við þessi mál hefur verið sú að ég vil allt upp á borðið. Ég vil allt upp á borðið. Þess vegna breytti ég úrskurði og ákvörðun þjóðskjalavarðar á sínum tíma af því að ég vildi að þeir einstaklingar sem málið snerti hefðu aðgang að þessum gögnum af því að við höfum hagsmuni af því að öll sagan sé sögð. Ekki bara brotabrot, ekki bara eitthvað til að létta á hugsanlegu samviskubiti vinstri manna á því hvernig sagan hefur leikið þá og þeirra stefnu í gegnum árin.

Ég er þegar búin að fara yfir það að menn verði að hafa hugfast hvers konar umhverfi og hvers konar aðstæður voru þarna. Við vitum það og munum mikilvæga og sorglega atburði í sögunni, hvort heldur við erum að tala um Berlín á þeim merka degi 17. júní, sem við Íslendingar elskum og dáum, en sú dagsetning vekur upp óhug í hugum og hjörtum Þjóðverja og þar er gata nefnd eftir 17. júní. Atburðina sem áttu sér stað 1953. Við getum nefnt líka Ungverjaland 1956 og Tékkland 1968. Allt eru þetta atburðir sem tengjast þeirri sögu sem við áttum þátt í. (ÖJ: Og Írak.) Þetta er hluti af því. Við erum að tala um þennan tíma og það er ekkert að fela varðandi Írak. Við getum tekið þá umræðu aftur og aftur og aftur, hv. þm. Ögmundur Jónasson, en það er alltaf það sama, það má ekki tala um alla söguna. Það má ekki segja að hér voru og við vitum það að Sovétríkin voru í mjög nánum tengslum við starfandi kommúnistaflokka í vestrænum ríkjum á sínum tíma. Þeir voru auðvitað misstórir, kommúnistaflokkarnir, og þeir voru þokkalega stórir. Þeir voru í óskafylgi Vinstri grænna sem er núna 20%. Mig minnir að Alþýðubandalagið hafi náð þeirri stærð á sínum tíma, Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkurinn sem síðan varð að Alþýðubandalagi. Þetta voru allt mjög öflugir flokkar. Menn verða að átta sig á því að það hefði verið mjög undarlegt ef menn hefðu ekki haft puttann á púlsinum á þessum tíma. Mér hefði þótt það mjög undarlegt og ég efast um að þeir stjórnmálamenn sem þá voru undir því sem menn kalla stjórnvöld eða handhafa framkvæmdarvaldsins hefðu verið að standa sig í stykkinu ef þeir hefðu ekki fylgst með eða reynt að átta sig á hvað væri að gerast.

Við verðum að átta okkur á því líka — það er svo sem auðvelt að tala um að það hafi alltaf verið Sjálfstæðisflokkurinn sem stóð í þessu, við erum búin að heyra það, við höfum oft heyrt þetta, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert að skammast sín fyrir í sinni sögu. Við vildum inngöngu í NATO og stóðum með því. Við vildum ekki fara gegn öðrum lýðræðisríkjum í Vestur-Evrópu, við höfum haft mikla hagsmuni af því að vera í samfylgd okkar systra- og bræðraþjóða í Vestur-Evrópu. Það er staðreynd sem menn eiga ekki að gleyma. Það sem mér finnst eiginlega slæmt við þennan málflutning í dag er ekki bara að hægt væri að flokka hann undir eitthvert pólitískt skítkast, við vitum að við fáum eitt og annað vegna sögunnar, en mér finnst verra þegar menn draga inn í hann dómstóla og dómara og þegar menn eru að draga inn í hann starfsmenn og efast um hæfni starfsmanna Pósts og síma á sínum tíma en við þurftum aðkomu þeirra til þess að fara í hleranir. Menn gleyma kjarna málsins. Kjarni málsins er sá að umhverfið á þeim tíma var með allt öðrum hætti en það er í dag. Sem betur fer búum við við mikla friðsæld í umhverfi okkar í dag, farsæld og friðsæld. Við erum mikið auðnufólk, Íslendingar, í dag. En það er staðreynd að á þeim tíma voru stjórnmálaöfl sem unnu beinlínis að því, og það hafa sagnfræðingar sýnt fram á, að kollsteypa lýðræðislegri stjórnskipan á Íslandi. Ef hverju segi ég það? Menn hafa verið að benda á 30. mars 1949. Í hverju fólust þær óeirðir? Hér inni var löglega kjörið þing, þingmenn sem fylgdu eftir sannfæringu sinni og það átti að koma í veg fyrir það með óeirðum. Þess vegna er hægt að segja að það hafi verið ákveðin atlaga að lýðræðislegri stjórnskipan hér á landi á þeim degi. Þetta er staðreynd. Menn eru alltaf að fara í kringum kjarna málsins. Það var líka staðreynd að íslensk stjórnmálaöfl voru í nánum tengslum við Sovétríkin. Það vita menn og Kommúnistaflokkurinn var nátengdur þeim og leppríkjum þeirra. Það er líka staðreynd, eins og ég kom inn á áðan, að ekkert vestrænt lýðræðissamfélag lét slíkt afskiptalaust þótt líklega hafi hvergi verið minna um það en á Íslandi. Það var hvergi minna eftirlit og það var frekar handahófskennt. Það var ekki eins reglulegt og í Noregi á sínum tíma.

Frú forseti. Þetta mál er ekki og má ekki vera neitt feimnismál. Öll sagan verður að vera sögð. Þess vegna er þetta frumvarp liður í því að draga allt fram. Ég tel mikilvægt að allt verði dregið fram í þessari sögu sem er svo mikilvægt að skrifa og skrá hvernig að þessu var staðið. Hver voru samskipti Íslendinga til vesturs en ekki síður til austurs, hver voru þau samskipti og hvernig var þeim háttað? Það er ekki síst í ljósi þess sem svo er mikilvægt að draga allt fram sem sagt var og gert á kaldastríðsárunum til þess að fá þá heildarmynd sem skiptir okkur svo miklu máli.

Þetta frumvarp er liður í því að varpa ljósi á söguna alla og ég bind miklar vonir við að frumvarpið nái fram að ganga. Ég heyri ekki annað en að allir séu reiðubúnir til að keyra það í gegn, ekki nema að einhverjir ákveðnir stjórnmálaflokkar sem eru ekki í stjórnarmeirihluta ætli að koma í veg fyrir að svo verði. Ég tel það hins vegar mikilvægt því að vinnan er mikil og snúin, umfangsmikil. Ég geri ráð fyrir að það taki allt að 3–4 ár að vinna sig í gegnum öll þessi gögn til að komast að hinu sanna í málinu. Þess vegna er mikilvægt að málið verði samþykkt hér sem fyrst núna á vordögum. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því og það væri vanræksla að gera það ekki.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. menntamálanefndar þar sem farið verði yfir þær athugasemdir sem settar hafa verið fram, m.a. af hálfu Ögmundar Jónassonar varðandi orðalag. Mér finnst þær hins vegar fyrir mitt leyti ekki til þess fallnar að ég geti stutt þær breytingar á orðalagi en að sjálfsögðu mun nefndin og nefndarmenn fara mjög vel yfir þær tillögur. Ég tel mikilvægt að við förum að tillögu fræðimannanna sem lögðu til þær tillögur sem við erum að ræða hér og orðalagið sem sett var fram af hálfu nefndarmanna er orðalagið sem við styðjumst við í þessu frumvarpi, frumvarpi sem leiðir okkur áfram til að varpa sem skýrustu ljósi á söguna.