133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ákaflega sammála því sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan að þetta á ekki að vera feimnismál. Það á að draga allt fram, bæði um það sem menn munu vita um samskiptin til austurs og líka til vesturs.

Það á að draga það fram hvað var í tunnunni sem menn notuðu á sínum tíma til að brenna skjöl. Það á að draga það fram hvað lá að baki ákvörðunum einstakra dómara um að láta hlera hjá t.d. alþingismönnum. Það á að draga þetta allt saman fram.

Mér finnst hins vegar að það tæki sem felst í þessu frumvarpi, sem er að mörgu leyti gott, sé ekki nægilega öflugt til þess. Ég tel að það þurfi aðrar aðferðir til þess að komast algerlega til botns í þessum málum. Ég vonast til þess þegar menn hafa farið yfir málin í framhaldi af samþykkt þessa frumvarps, að þá komist menn til ráðs með að það þurfi að gera betur. Ég trúi því að það verði gert.

Því það er nefnilega þannig að svona hlutir þurfa að fá umræðu. Þjóðin þarf að átta sig á því hvað gerðist og það á ekkert að draga neitt undan í því. Þjóðin hefur gott af því. Það geta alltaf komið upp aðrir tímar þar sem tortryggni og óvild milli aðila í samfélaginu raska kannski svolítið þeirri skynsemi sem fólk hefur. Og þess vegna þurfum við að læra af þeirri sögu sem þarna gerðist.