133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[17:50]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Eins og mér þykir innihald nafnlauss bréfs sem nú um stundir er í umræðunni varðandi dómara og dómstóla landsins ósmekklegt, sú mikla gagnrýni sem er viðhöfð í því bréfi á dómstóla landsins, þá finnst mér þessi gagnrýni hv. þingmanns á dómstóla og dómara fyrri ára líka vera mjög ósmekkleg. Því hv. þm. Jóhann Ársælsson er ekki að segja annað en að annarleg eða önnur sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu og ákvörðunum dómara hér á árunum áður. (JÁ: Ég sagði það aldrei.)

Það er ekkert um annað að ræða. Dómari kemst ekki að einhverri niðurstöðu nema hann telji réttmætt að fara og leyfa að hlera. Fara og heimila dómsúrskurð í hlerunum. Ef menn segja að hann eigi ekki að heimila það en hafi gert það á grundvelli einhverra annarra sjónarmiða en lögmætra þá er ekki um annað að ræða en það.

Dómari tekur ávallt ákvörðun út frá lögmætum sjónarmiðum. Út frá þeim sjónarmiðum sem hann telur vera mikilvæg. Það verður seint undirstrikað og ítrekað að allt sem var framkvæmt á þessum árum í tengslum við hleranir var gert lögum samkvæmt. Það er hvergi hægt að tala um eða benda beint á að einhver stjórnmálamaður hafi komið að því að það yrði sett á að hlera þennan síma, hér eða núna. Því það var lögreglan sem framkvæmdi það. Það var dómari sem ákvað það. Það voru starfsmenn Pósts og síma sem komu að því að framkvæma málið.

Þess vegna finnst mér þetta vera í hæsta máta sérstakt, í versta falli ósmekklegt, hvernig er verið að vega að æru dómara fyrri ára eins og er verið að gera nú um stundir á dómurum nútíðarinnar.

Hins vegar undirstrika ég það aftur, frú forseti, að það er mikilvægt að við fáum allt upp á borðið, að við upplýsum söguna fyrir börnin okkar en líka fyrir okkur til þess að átta okkur á því hvað beri að gera undir ákveðnum aðstæðum og hvað beri að varast.