133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Þjóðskjalasafn Íslands.

642. mál
[18:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég frábið að mér séu lögð orð í munn eða snúið út úr því sem ég hef sagt. Á hvern hátt er ég talsmaður þess að einhver hálfsannleikur verði sagður? Hef ég verið að tala fyrir slíku? Hef ég verið að tala gegn því að sannleikurinn allur komi fram, þess vegna njósnir sem voru stundaðar af Sovétmönnum eða tengsl austur á bóginn á milli pólitískra afla innan lands? Ég hef aldrei talað gegn slíku. Ég vil allt upp á borðið, allt. Og þá ekki síður hitt hve tengslin voru vestur á bóginn. Ég vil að allt þetta verði rannsakað.

Ég legg áherslu á það að þeir sem voru undir í þessari baráttu, þeir sem voru hleraðir, þeir sem rök hafa verið færð fram og líkur benda til að hafi þurft að gjalda með atvinnu sinni vegna þess að þeir höfðu óheppilegar skoðanir, að þeirra mannorð verði reist við vegna þess að það sem við erum að fjalla hér um er aðkoma íslenska ríkisins og ráðandi pólitískra afla á Íslandi um áratuga skeið. Við erum að fjalla um það og um það fjallar þetta frumvarp, hvernig eigi að opna sagnfræðingum leið að þeim gögnum. En að gefa í skyn að það sé einhver annar hluti af veruleikanum sem ég vilji hylja eða ekki ræða, það er bara alrangt. Ég hef aldrei verið talsmaður slíks, aldrei nokkurn tímann. Ég vil fá allan sannleikann fram og er eindreginn talsmaður þess.