133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:00]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna og breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Tilgangur þessa frumvarps virðist vera sá að reyna að taka á því með einhverjum hætti að sjómenn taki ekki þátt í kvótakaupum.

Við stöndum frammi fyrir því að þróun verðs á aflaheimildum hefur verið með undarlegum hætti frá því að frjálst framsal aflaheimilda komst á. Þetta verð hefur alltaf tekið nýjar hæðir og fróðustu menn í reiknikúnstum finna nú ekki út hvernig á því stendur að verð á aflaheimildum sé svo hátt og telja að ekki sé rekstrargrundvöllur fyrir útgerð sem kaupir eða leigir sér aflaheimildir. En samt heldur verðið áfram að hækka og hefur náð enn nýjum hæðum þennan veturinn.

Í gegnum tíðina hefur marga grunað að sjómenn hafi tekið þátt í kvótakaupum með einhverjum hætti. Það er ekki örgrannt um að ýmsir telji að það verð sem Verðlagsstofa skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna finnur út að sé hið rétta verð sé verð sem samræmist ekki því að sjómenn taki ekki þátt í kvótakaupum, þótt með óbeinum hætti sé.

Það er nefnilega þannig að þær útgerðir sem eiga hlut að máli og leigja frá sér aflaheimildir, og þannig hefur það verið í gegnum tíðina, hafa keypt aflaheimildir á því verði sem hefur verið á markaðnum og síðan hafa þær aflaheimildir verið leigðar út með því verði sem þarf til þess að greiða þær niður. Á undanförnum árum hefur því verið jaðarverð á veiðiheimildum. Það jaðarverð er svo hátt að fyrirtækin í sjávarútvegi, sem eru mörg hver öflug og ágætlega rekin, hafa ekki treyst sér til að vera á hlutabréfamarkaði vegna þess að verðlag á hlutabréfunum hefur verið langt fyrir neðan það verð sem menn reikna út að muni fást fyrir þær aflaheimildir sem viðkomandi útgerðir eiga. Þarf frekar vitnanna við að eitthvað sé bogið við kerfið sem slíkt þegar svona er komið? Nei, það þarf ekkert frekar vitnanna við.

Hins vegar hafa stjórnvöld móast við að taka á þeim vandamálum sem þarna eru. Þau eru fyrst og fremst fólgin í því að viðskiptaumhverfið í sjávarútveginum er mjög óeðlilegt. Sömu fyrirtækin og eiga aflaheimildirnar reka gjarnan fiskvinnslu og þau kaupa aflann af sjálfum sér á verði eins og því sem við erum að tala hér um, þ.e. á verðlagsstofuverði sem er langt fyrir neðan verðið sem er á fiskmörkuðum í landinu.

Nú má vel segja að verðið á fiskmörkuðunum sé kannski ekki algerlega lýsandi fyrir fiskverð á Íslandi vegna þess að fiskmarkaðirnir fá ekki til sín nema hluta af þeim afla sem kemur á land. Og það má því halda því fram að það verð sé hærra en annars væri ef allur afli færi í gegnum markaði og tæki verð á mörkuðum og viðskiptin færu fram þannig að kaupendur tækjust á á markaði um það að fá til sín allan afla sem að landi kemur. Þessu þarf auðvitað að breyta til þess að eðlilegt verð myndist á fiskinum. En það er ekki nóg vegna þess að verðið á aflaheimildunum þarf líka að vera eðlilegt til þess að hægt sé með eðlilegum hætti að taka þátt í samkeppni í sjávarútvegi á Íslandi.

Til þess að það geti orðið þarf auðvitað að verða til eðlilegur markaður með aflaheimildir. Hann er það ekki. Það er auðvitað vegna þess að útgerðarfyrirtækin í landinu sem hafa aflaheimildirnar eru í stöðu sem nánast má líkja við stöðuna sem einokunarkaupmennirnir höfðu hér áður þar sem enginn mátti versla nema með þeirra leyfi, nema að þeir gæfu leyfi fyrir því að einhverjir aðilar gætu komið og tekið þátt í verslunarrekstri. Þetta er auðvitað óásættanlegt fyrirkomulag. Ég tel að það muni ekki breytast fyrr en menn taka á því hvernig eigi að fara með auðlindir í þjóðareigu á Íslandi.

Sjávarauðlindin á auðvitað að vera í þjóðareign og það á að setja ákvæði í stjórnarskrána. Ég er algerlega sammála ríkisstjórninni um að það eigi að setja ákvæði í stjórnarskrána um þjóðareign á auðlindum sjávar. (Gripið fram í: … að standa við.) Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á að menn ætli að svíkja þjóðina og kjósendur um að setja þetta ákvæði í stjórnarskrána. Það er verið að hnoðast með þetta mál enn þá á bak við tjöldin og við vitum ekkert hver niðurstaðan verður. En allar vísbendingar sem hafa komið fram í þessu máli benda til þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að fyrirkoma þessu loforði sem hann undirskrifaði í stjórnarsáttmálann.

Það er ótrúlegt að svo skuli vera. Og enn ótrúlegra er það nú ef Framsóknarflokkurinn ætlar að líða það að hans helsta kosningamál verði forsómað með þeim hætti að Sjálfstæðisflokkurinn setji bara fótinn fyrir málið í nefndinni sem var stofnuð til að koma því fram sem ríkisstjórnin lofaði. Ja, þvílíkt og annað eins.

Þetta hefði nú varðað stjórnarslitum í öllum venjulegum ríkisstjórnum. Það er alveg ábyggilegt. En þetta er ekki venjuleg ríkisstjórn. Þetta er ríkisstjórn þar sem annar flokkurinn virðist hafa gjörsamlegt tangarhald á hinum. (JGunn: Heimilisofbeldi.) Ég ætla ekki að taka mér það orð í munn sem kallað var hér fram í. En það er eitthvað undarlegt við það þegar annar stjórnarflokkurinn sem nær því í gegn við stofnun ríkisstjórnar að það komi ákvæði inn í stjórnarsáttmálann af þessu tagi, ef sá flokkur ætlar að gefast upp á málinu, ætlar að láta hinn stjórnarflokkinn komast upp með að svíkja þetta.

En um leið og menn hafa sett ákvæði um þjóðareign á auðlindum sjávar inn í stjórnarskrána þá þarf auðvitað að sjá til þess í framhaldinu að eignarhaldsins verði gætt fyrir hönd þjóðarinnar með eðlilegum hætti eins og hlýtur að þurfa að gera gagnvart auðlindum í þjóðareign. Allar auðlindir í þjóðareign eiga að vera undir það sama seldar.

Það liggur fyrir frumvarp í iðnaðarnefnd þar sem var fjallað nákvæmlega um það hvernig ætti að fara með auðlindir í þjóðareign, þ.e. þær auðlindir sem heyra undir lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Með þeim tillögum sem þar eru er algjörlega lagt fyrir um það að með þau verðmæti verði farið þannig að allir sem vilja nýta fái jöfn tækifæri til þess að koma að þeirri nýtingu og að úr því verði þá skorið með tilboðum og öðrum slíkum aðferðum eins og venjulega er notað þegar ríkið er að úthluta einhverjum gæðum, hvort sem það er nú vegarlagning eða hvað annað, þá verði skorið úr því með svipuðum hætti hvað varðar þær auðlindir sem aðilar sækjast eftir að nýta. En ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra segir okkur hér við umræðuna að með þessu frumvarpi eigi að koma í veg fyrir að sjómenn taki þátt í kvótakaupum. Ég er búinn að fara yfir það sem ég ætlaði að segja um það verð sem hefur orðið til hjá Verðlagsstofu skiptaverðs, nema að mér er sagt að það verð sé svo miklu lægra en verðið sem fáist á fiskmörkuðum að það sé kannski ekki svo mikill munur á því verði sem fæst á fiskmarkaðnum að frádregnu kvótaverðinu sem viðkomandi aðili hefur greitt og svo því verði sem viðkomandi aðilar fá til skipta þegar samið er við þann aðila sem á sjálfur veiðiheimildirnar líka, þ.e. í beinum viðskiptum.

Þá sjá menn auðvitað hvernig er í pottinn búið. Að þessir samningar eru auðvitað ekki í samræmi við verðmæti sjávarafla eins og það verðmæti kemur fram í viðskiptum á markaði. En ég segi þetta auðvitað með fyrirvara um það að ef menn færu í þann leiðangur sem nauðsynlegur er í sjávarútveginum og skildu á milli veiða og vinnslu og létu markaðinn ákveða verð á fiski, öllum fiski sem kæmi að landi, þá mundi heildarverð á fiski að öllum líkindum lækka og yrði þá eðlilegra og þá yrði samræmi í verðinu.

Mig langar til að beina einni spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra um frumvarpið, það er reyndar ekki mikil breyting á lagatextanum sjálfum, en hér stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.“

Nú langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Viðgengst það enn að menn flytji aflaheimildir til geymslu hjá öðrum útgerðum? Eru þá svona samningar lagðir til grundvallar þeim? Lagatextinn er alveg skýr. Það má ekki flytja veiðiheimildirnar á milli nema liggi fyrir slíkur samningur sem þarna er um að ræða.

En ég veit ekki annað en að menn hafi stundað þessa leikfimi með veiðiheimildir, að flytja þær á milli útgerða til geymslu og er það þá ekki og hefur það ekki verið ólöglegt, eins og ég hef reyndar oft haldið fram áður?

Mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra þurfi að upplýsa okkur um þetta eða hvort útgerðarmenn séu núna loksins hættir þessum æfingum vegna þess að þarna eru gríðarleg verðmæti á ferð sem eru færð milli útgerða þegar kemur að lokum fiskveiðiársins, eða þetta hefur verið gert á undanförnum árum og þá er auðvitað eðlilegt að þessi verðmæti séu skráð hjá viðkomandi fyrirtækjum á því verði sem þau hafa á markaði. Menn eiga að sjálfsögðu ganga frá slíkum viðskiptum með eðlilegum hætti. Máski er það orðin niðurstaðan núna að menn geri það.

En það hefur ekki verið í gegnum tíðina. Það hefur verið plagsiður að notfæra sér þessa leið sem stjórnvöld hafa lagt blessun sína fyrir vel að merkja. Þetta er auðvitað eitt dæmið um það hvers konar sukk hefur verið við stjórn fiskveiða og þær reglur sem hafa verið hvað þær varðar allan tímann.

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma aðeins aftur að fiskverðinu. Sjómenn og útgerðarmenn hafa náð einhvers konar sáttum um þá aðferð sem nú er í gangi um Verðlagsstofu skiptaverðs. Menn hafa sæst á að fara einhverja millileið og sjómenn eru þá líklega hættir að hluta til að taka þátt í kvótakaupum en þó ekki alveg. Þeir fengu einhvern áfangasigur þegar þeir náðu fram þeirri aðferð sem nú er notuð.

En áfangasigur í þessu er ekki nógur. Það verður að horfast í augu við að veiðiheimildir eru verðmæti. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum þá í hug að það sem kostar mest í stofnun á einni útgerð, þ.e. veiðiheimildirnar, skipti engu máli í rekstri útgerðar og það eigi bara að horfa gjörsamlega fram hjá þeim þegar menn semja um kaup og kjör?

Sjómenn hafa alltaf borið kápuna á báðum öxlum í þessum efnum. Þeir sögðu í upphafi að þeir ætluðu ekki að skipta sér af kvótakerfinu af því það ætti ekki að koma þeim við. Af því að þeir ætluðu sér ekkert að taka þátt í fjármögnun á þeirri sölustarfsemi sem fer fram með verslun og veiðiheimildir.

Auðvitað var það ljóst frá upphafi að þetta gæti ekki verið svona. Verðmæti aflaheimilda er grunnkostnaður í útgerð og langstærsti liðurinn í útgerðarkostnaðinum, í fjárfestingunni til þess að geta rekið eina útgerð. Það verður auðvitað ekkert eðlilegt ástand í sjávarútvegi fyrr en menn horfast í augu við þetta. Auðvitað þurfa útgerðarmenn og sjómenn að semja upp á nýtt á eðlilegum grundvelli þar sem tekið er tillit til alls sem um er að ræða, t.d. útgerðarkostnaðar og þess vegna, eins og sjómenn sömdu um á sínum tíma, að taka meira að segja þátt í olíukostnaði með mjög sérkennilegum hætti. En í kvótakostnaði útgerðarinnar segjast sjómenn í orði kveðnu ekki taka þátt. Það mun þó vera stærsti liðurinn sem þeir hafa nokkurn tíma tekið þátt í í útgerð á Íslandi og er enn.

Þetta kostar auðvitað umbyltingu og endurskoðun á því umhverfi sem er í sjávarútvegi. En það er ekkert hægt að komast undan því. Það verður að skilja á milli veiða og vinnslu. Það verður að koma á eðlilegu fyrirkomulagi hvað varðar samninga sjómanna og útgerðarmanna þar sem tekið er tillit til þess kostnaðar sem liggur að baki. Og þetta verður að gera þannig að sambærilegar reglur gildi í sjávarútvegi og í öðrum atvinnugreinum í landinu.

Þetta fyrirkomulag sem nú er uppi er ekki með neinum hætti boðlegt. En þessi vandamál vegna verðmætis veiðiréttarins munu alltaf verða uppi vegna þess að það er alveg saman hvernig menn stjórna fiskveiðum. Veiðirétturinn mun alltaf hljóta verð og það verða menn að horfast í augu við. Sjómenn þurfa auðvitað að gera það líka. Með öðrum hætti verður aldrei hægt að koma á eðlilegu fyrirkomulagi.

Ég held að reynslan sé nú búin að kenna mönnum þetta. Svo lengi hafa menn rekið þetta kerfi og svo lengi hafa menn séð gallana á því fyrirkomulagi sem er uppi, að það er eiginlega ótrúlegt að stjórnvöld skuli enn þann dag í dag mæta með svona plögg í sali hv. Alþingis, án þess að ætla að taka á aðalvandamálunum.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar ekki að gera betur en þetta í þetta sinnið og ekki hefur hann heldur boðað nein plön um að hann ætli að ráðast að rótum vandans. Ekki hef ég heyrt neitt einasta orð frá hæstv. sjávarútvegsráðherra um að hann vilji skilja á milli veiða og vinnslu eða reyna að sjá til þess með einhverjum ráðum að fiskur hljóti með sambærilegum hætti verð á markaði í landinu. Ég hef heldur ekki séð að hæstv. sjávarútvegsráðherra sé með nein plön uppi um að tekið verði á þeim vandamálum sem fylgja háu kvótaverði.

Það er auðvitað hægt að gera það. Leigumarkaður með kvóta er að mörgu leyti mjög óeðlilegur. Ég hef bent á það áður, að með einfaldri leið, þ.e. að úthluta alltaf á grundvelli þriggja ára veiðireynslu til útgerðanna í landinu, þá mætti draga verulega úr leigubraskinu sem er í gangi. Vegna þess að þá mundi veiðirétturinn færast hægt og bítandi til þeirra sem eru að nýta hann.

Er það ekki þannig sem það á að vera? Á ekki veiðirétturinn að vera hjá þeim sem róa og veiða fisk? Er einhver framtíðarsýn fólgin í því að það verði fleiri og fleiri sem geri bara út á einhverjar kvótaleigur?