133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[20:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Númer eitt er að breyta verður grunninum og forsendunum fyrir fiskveiðistjórnarkerfinu. Auðvitað verðum við að vera með stýringu á því hvernig við nýtum auðlindina. En ég vil minna á að í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er einmitt lögð áhersla á að flotanum sé skipt upp og byggðirnar fái sérgreindan rétt til veiða á grunnslóðinni. Og fólkið í landi, fólkið í sjávarplássunum, sem hefur átt sína hlutdeild í að gera þessa auðlind að því verðmæti sem hún er, á sinn rétt. Það er ekki bara hægt að segja að stórútgerðirnar eigi sinn rétt. Það er markvisst verið að útrýma einyrkjunum í útgerðinni. Ég nefndi einmitt verðið á kvótanum, það er náttúrlega alveg út í himinblámann og útilokar algerlega nýliðun.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um krókaveiðar verðum við náttúrlega fyrst að breyta grunni kerfisins og krókaveiðar í kvótakerfi eru í sjálfu sér líka vandamál. En á bátum með venjulegum handfærum þar sem ekki er um hreina verksmiðjuhandfærabáta að ræða, þá sýnist mér þetta vera — það er í sjálfu sér ekki vandinn. Aðalmálið er að breyta grunni kerfisins og vinna síðan út frá því. Það held ég að við hv. þingmenn séum sammála um, þ.e. að (Forseti hringir.) réttur fólksins og réttur byggðanna vítt og breitt um landið fái að njóta sín í alvörunni, (Forseti hringir.) herra forseti.