133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:00]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp sem er bót á gallað verðmyndunarkerfi sem er með margvíslegum hætti í sjávarútvegi. Það eru m.a. frystiskipin þar sem heimsmarkaðsverð ræður og það er eðlilegt, svo eru skip sem selja beint á markað og síðan er verðmyndun í föstum samningum. Þetta er allt hið einkennilegasta kerfi í þessum sjávarútvegi og það sætir furðu að fulltrúi vinstri flokkanna á Alþingi skuli hafa meiri skilning á markaðslögmálum en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hæstv. ráðherra, sem vill halda í það margbrotna og óréttláta kerfi sem ríkir í sjávarútvegi, kemur beint niður á og skerðir mjög hag sjómanna. Ég tel að áður en við förum lengra í þetta mál verði menn að velta fyrir sér grunninum á kerfinu, þ.e. að þetta kerfi byggir á kvótakerfinu sem var hugsað til þess að byggja upp fiskstofna og tryggja byggð í landinu. Þegar maður fer hringinn í kringum landið sér maður að þetta kerfi hefur ekki skilað góðum árangri.

Ég var síðast staddur á Djúpavogi og það var nánast einróma álit fólks þar að þetta kerfi væri nánast ótækt. Ef maður fer síðan hringinn í kringum landið sér maður að kerfið er mjög vont í alla staði. En það gengur upp út frá lagatæknilegu sjónarmiði og síðan einhverju skriffinnskusjónarmiði en ekki við að byggja upp fiskstofna. Það sér hver maður að við það að banna veiðar á einum stað, t.d. inni í Berufirði, mun fiskunum ekki fjölga á t.d. Vestfjarðamiðum en samkvæmt því kvótakerfi sem þetta frumvarp er hluti af er gengið út frá því og þá gengur það upp út frá stjórnsýslu og skriffinnsku að draga aflaheimild í Berufirði frá því sem má veiða á Vestfjörðum. Þetta er fáránlegt og þessu kerfi þarf að linna.

Við höfum dæmin fyrir okkur um fiskveiðistjórnarkerfi sem ganga upp. Þá á ég ekki við það kerfi sem er notað í Evrópusambandinu, heldur í Færeyjum. Alls staðar þar sem reynt hefur verið að nota kvótakerfið er allt á sömu bókina lært, það hefur í rauninni skilað stórtjóni. Ef maður fer til sjávarbyggða í Skotlandi er búið að leggja þar um 70% af fiskveiðiskipum á undanförnum örfáum árum og ég held að við verðum aðeins að átta okkur á því hvernig ástandið er á Íslandi. Við skerum eilíft niður aflaheimildir og nú erum við komin í um 200 þús. tonna þorskkvóta en að jafnaði voru fyrir nokkrum árum veidd um 400 þús. Við erum sem sagt í helmingi minni afla af þorski en við vorum fyrir daga kerfisins.

Hvað gera helstu talsmenn þessa kerfis? Þeir boða enn og aftur niðurskurð. Hverju á hann að skila? Síðast í kvöldfréttunum í kvöld var sagt að það ætti að skera meira niður. Þar kom fulltrúi Hafrannsóknastofnunar, sjálfur forstjórinn, á fund vestur á fjörðum og sagði að skera þyrfti niður. Það sem mér þótti athyglisvert og ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra um er hvort það sé ekki rétt að bera þá á borð einhver gögn frá andmælendum kerfisins eða þeim sem hafa aðra sýn þegar fulltrúar vísindastofnunar fara um með svona fréttir. Meðal annarra gæti sá sem hér talar farið yfir forsendurnar.

Þessir menn hafa ítrekað sýnt að þeir hafa haft rangt fyrir sér. Hæstv. sjávarútvegsráðherra vill einhverra hluta vegna alls ekki að þessar kenningar séu skoðaðar með gagnrýnum augum. Til dæmis hafa vísindastyrkir ekki verið veittir þeim sem hafa viljað skoða þessa hluti með öðrum hætti, hafa jafnvel lagt grunninn að árangursríku fiskveiðistjórnarkerfi í Færeyjum. Þar á ég ekki síst við Jón Kristjánsson fiskifræðing. Hann hefur náð árangri þar. Þar er botnfisksaflinn svipaður og jafnvel meiri en fyrir 20 árum eftir að Færeyingar tóku upp sóknarstýringu. Það er miklu nær að reyna að stýra með þeim hætti en að stjórna afla með fyrir fram ákveðnu magni sem er reiknað út frá gögnum sem eru kannski nokkurra mánaða gömul. Ég verð að segja að þetta er álíka og að ákveða að vori til hvað eigi að koma mikið upp úr öllum kartöflugörðum landsins að hausti, að það yrði gefin út einhver heildaruppskera yfir línuna. Það sjá allir að það er tóm della, sérstaklega ef menn vita ekki hvað þeir eru með mikið útsæði og þar er einmitt mesta óvissan í stjórn fiskveiða, yngstu aldurshóparnir. Það er mikil óvissa varðandi þá. Ég verð að segja að mér finnst hæstv. sjávarútvegsráðherra búinn að koma sér í brjóstumkennanlega stöðu. Hann er búinn að vera einn helsti andmælandi kerfisins í gegnum árin og kemur síðan með frumvarp sem er hvorki eitt né neitt. Hér hefur verið sýnt fram á með veigamiklum rökum, sérstaklega af hv. þm. Jóni Gunnarssyni, að nánast engin breyting felst í þessu. Einnig kom fram í andsvari hæstv. ráðherra við mig að þetta snertir ekki neitt þá sjómenn sem taka mjög mikinn þátt í leigu aflaheimilda, þ.e. suma hverja sem eru á minnstu bátunum, undir 15 tonnum, sem hafa ekki einu sinni kjarasamning.

Morgunblaðið gerði á sínum tíma samning við blaðburðarbörn sín eftir umræður sem fram fóru í samfélaginu, en hér verðum við vitni að því að hæstv. sjávarútvegsráðherra lýsir því nánast yfir að það komi honum ekki við hvort sjómenn landsins hafi kjarasamning eða ekki. Síðan leggur hann fram frumvarp sem snertir þá ekki neitt, en án efa þurfa einhverjir að taka þátt í þessum viðskiptum sem skerða hlut þeirra. Ég verð að segja að mér finnst illa komið fyrir hinum gamla Sjálfstæðisflokki að vera í þessum verkum og halda því fram að þetta sé byggðatengt mál, að bátum undir 15 tonnum hafi fjölgað. Ætli það sé ekki miklu frekar það að þegar verðlagning á aflaheimildum rýkur upp er orðin einfaldlega meiri pressa að taka af launum sjómanna og þá er helst tekið þar sem engir eru kjarasamningarnir. Einhver hluti af þessum sjómönnum er að verða af erlendu bergi brotinn því að Íslendingum bjóðast einfaldlega betri laun annars staðar en á þessum bátum. Maður er svo hissa á því að sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli ekki sýna meiri metnað fyrir hönd atvinnugreinarinnar en kemur fram hér æ ofan í æ í þeim frumvörpum sem hann leggur fram. Hann leggur fram frumvörp sem eru hvorki fugl né fiskur, sem í rauninni taka ekki á þessum vanda og opna alls ekki fyrir nýliðun í greininni.

Það er einmitt nýliðun sem greinin þarf. Það þarf að fá ungt fólk til að taka þátt í atvinnugreininni og það verður þá gert með því að hafa leikreglurnar sanngjarnar og að þær tryggi að ungt fólk geti sótt inn í greinina. Meðan svo er ekki verður engin nýliðun og þá helst þessi þróun áfram sem er í sjávarútvegi. Ef hæstv. sjávarútvegsráðherra þorir ekki að skoða þá rannsóknastefnu sem hefur verið í tísku á undanförnum árum með gagnrýnum augum mun hann áfram horfa upp á niðurskurð. Því miður virðist hæstv. sjávarútvegsráðherra vera það kjarklaus að hann þori ekki einu sinni að veita fjármagn (Forseti hringir.) í þær rannsóknir sem vilja skoða þá stefnu sem hefur verið á umliðnum árum (Forseti hringir.) með gagnrýnum hætti og (Forseti hringir.) skilar því miður eingöngu niðurskurði.