133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:11]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er rétt að menn rifji upp hvernig Verðlagsstofa skiptaverðs varð til. Eftir ítrekaðar vinnudeilur milli útgerðarmanna og sjómanna sem enduðu sífellt með því að lög voru sett á sjómenn á hv. Alþingi varð til þessi sáttmáli milli útgerðarmanna og sjómanna. Hvað sögðu hv. þingmenn og ráðamenn í samfélaginu? Þeir eiga að semja. Þeir áttu að leysa þann hnút sem var búinn til á Alþingi með þessu fyrirkomulagi sem er hér í veiðum og vinnslu, í kvótamálum þar sem aðilum er úthlutaður kvóti og síðan kemst enginn að í útgerð á Íslandi öðruvísi en að kaupa hann af þeim. Svarið var ævinlega: Þeir eiga að leysa þennan hnút. Þeir eiga að semja. Þegar það gekk ekki endaði þetta ævinlega með því að menn settu lög á sjómenn.

Í þeirri nauðhyggjustöðu sem upp kom endaði það með því að þessi sáttmáli var gerður um Verðlagsstofu skiptaverðs. En er hún eitthvað mikið öðruvísi en hið gamla Verðlagsráð sjávarútvegsins, landssambandsverðið gamla illræmda sem var við lýði áratugum saman? Þar var mönnum bara skammtað eitt verð. Nú standa menn í sömu sporum og þá. Það kann að vera að það verð sem nú er uppi sé eitthvað skárra en var á þeim tíma vegna þess að fiskverð hefur hækkað gríðarlega mikið á mörkuðum erlendis, og sjómenn hafi þess vegna eitthvað betri kjör í dag en á þeim tíma sem það verð var uppi sem menn kalla landssambandsverð. Þetta var aðdragandinn að þessu verði.

Fóru menn alla leið í þessum samningum? Ég held ekki. Ég held að samanburðurinn á verðinu sem fæst á mörkuðum og því verði sem kemur út úr Verðlagsstofu skiptaverðs sýni að þarna er langur vegur á milli. Að mörgu leyti hefur þetta líka áhrif á kvótaverðið sem þarna er á ferðinni. Þetta er óverjandi fyrirkomulag en það er svo skrýtið að sjálfstæðismenn vilja viðhalda svona kerfum. Þeim finnst þetta fín kerfi, bæði í landbúnaðinum og sjávarútveginum, kvótafyrirkomulag þar sem menn fá einhverja kvóta frá ríkinu. Þeir mega selja þetta hverjir öðrum og eru undir pilsfaldinum á stjórnvöldum. Þetta eru fín kerfi á vegum Sjálfstæðisflokksins, alveg sjálfsagt að vera með svona kerfi finnst sjálfstæðismönnum. Það er enginn hissa á því þótt Framsóknarflokkurinn vilji hafa svona kerfi. Hann hefur ævinlega litið á sig sem þjón landbúnaðarforustunnar, enda voru bændur fyrirferðarmiklir á þingi á sínum tíma og þingstörf eru enn þá miðuð við tilhleypingar og vorannir í sveitum. Það er ekki eðlilegt að menn haldi þessu áfram inn í framtíðina, en þegar þessir flokkar koma saman í ríkisstjórn virðist sem svona kerfi séu fest í sessi og óluð niður með öllum mögulegum ráðum. Meira að segja hefur það átt fyrir hæstv. sjávarútvegsráðherra að liggja að stagbæta ríkjandi fyrirkomulag. Þótt hann hafi sjálfur verið einn af gagnrýnendum þessa kerfis, sennilega frá upphafi þess, hefur það átt fyrir honum að liggja að taka við kerfinu eins og það var og gera engar marktækar breytingar á því. Það verður greinilega hans saga, hæstv. sjávarútvegsráðherra, í sjávarútvegsráðuneytinu að hafa ekki gert miklar breytingar á þessu fyrirkomulagi, enda hefur það verið aðalverkefni ýmissa stjórnarþingmanna að reyna að finna leiðir til að koma til móts við neyð í einhverjum einstökum stöðum í landinu en ekki til að taka almennt á gildandi fiskveiðistjórnarkerfi.

Ég verð að segja að ég sakna þess að hv. formaður sjávarútvegsnefndar láti uppi afstöðu sína til þessa máls. Það gæti orðið fróðlegt að hlusta á ræðu hans um þetta. Ég geri ráð fyrir að hann sé ekki par kátur með málið. Ég geri ráð fyrir því að uppruni hans úr Vestmannaeyjum og væntumþykja við sjómenn þar nái lengra en svo að þessar bætur á kerfið dugi til að fullnægja réttlætiskennd hans gagnvart sjómönnum. Það er auðséð að ekki verður hægt að láta sjómenn taka þátt í kvótakaupum með þeim breytingum sem hér er um að ræða.

Ég spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra um vistun aflaheimilda áðan og bíð spenntur eftir svarinu. Ég tel það mjög fróðlegt og upplýsandi fyrir þjóðina og þingið að fá að vita hvort menn eru hættir þeim leik sem þar er á ferðinni. Ég trúi ekki öðru en að við fáum skýr svör frá hæstv. ráðherra um það hér á eftir. Ég saknaði þess að hann kæmi í andsvar við mig og kæmi því máli út úr heiminum.

Það er þannig að sjávarútvegurinn blæðir fyrir hið háa kvótaverð. Með þessu jaðarverði á kvótum sem verður til með þeim hætti sem við höfum lýst í kvöld verður útgerð einstakra útgerðarmanna tóm vitleysa. Þeir fara alltaf að horfa á það hvað þeir fá fyrir þennan kvóta. Þá komast þeir að þeirri eðlilegu niðurstöðu að það sé miklu nær að selja þennan kvóta og njóta fjármunanna í einhverju öðru, setja þá í arðsamar hugmyndir frekar en að halda áfram að gera út og standa í því frá degi til dags. Þess vegna blæðir sjávarútveginum daglega, útgerðarmenn taka ákvarðanir um að selja veiðiheimildirnar sínar og fara að gera eitthvað annað. Þeir sem kaupa eru — hverjir? Stórútgerðirnar í landinu og það eru útgerðirnar sem nota leigubraskið á kvótanum til að borga þær veiðiheimildir sem þeir kaupa. Þannig er jaðarverðið á veiðiréttinum búið að loka greininni gersamlega fyrir nýliðun. Þetta er sá vandi sem við er að etja. Ég tel að hann verði ekki leystur nema menn ráðist á grundvallarþættina í þessu kerfi, m.a. — og ég endurtek það enn einu sinni hérna — væri hægt að gera það með því að úthluta veiðiréttinum á grundvelli þriggja ára veiðireynslu. Þeir sem nýttu hann fengju hann þá smám saman til sín en hann væri ekki áfram hjá þeim sem ætluðu ekkert að gera út, ætluðu bara að græða á einhverju braski.

Að lokum vil ég svo segja það í þessari ræðu minni að mér finnst að hæstv. sjávarútvegsráðherra eigi að segja okkur hér hvað hann hyggst fyrir varðandi auðlindaákvæðið. Hann er aðili að ríkisstjórninni, hann ber ábyrgð á því loforði til þjóðarinnar og kjósenda í landinu að þessi auðlind verði fest í stjórnarskrá sem þjóðareign til framtíðar. Það er ekki upp á það bjóðandi að Sjálfstæðisflokkurinn sitji þegjandi sífellt þegar þessi mál eru til umræðu hér, að menn komist ekki upp í stólinn. Hæstv. forsætisráðherra hefur setið hér þegjandi þegar hann hefur verið spurður um þetta. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins þegja hér alltaf þegar þetta mál er rætt. Alvarlegar ásakanir hafa komið fram um að þeir ætli að svíkja þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum. Það var mikið talað um sjávarútvegsmál fyrir síðustu kosningar og þetta varð niðurstaðan, þetta var sáttmálinn við þjóðina, við kjósendurna, og Framsóknarflokkurinn fékk þetta inn í stjórnarsáttmálann.

Þegar um þetta er spurt í þingsölum Alþingis, hvort það sé virkilega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að stoppa málið af, sitja menn og þegja. Það er ekki mjög mannborulegt verð ég að segja. Einn og einn skrifar í blöðin: Við skulum ekki gera þetta. Við skulum ekki setja auðlindirnar í þjóðareign. Það eru sjálfstæðismenn sem skrifa þær greinar. En hér í sölum Alþingis þegja þeir.