133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:42]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa umræðu. Um hana má ýmislegt segja, t.d. að hún hefur verið allítarleg og verið komið inn á mjög marga hluti en ég ætla fyrst og fremst að reyna að einskorða mig við þær spurningar sem fyrir mig hafa verið lagðar og reyna með því að freista þess að varpa betra ljósi á frumvarpið en mér tókst í fyrri ræðu minni.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði mig að því hvort það væri svo að aflaheimildir væru lagðar inn til geymslu hjá útgerðarmönnum, og er það þannig. Við vitum að það er þekkt fyrirbrigði að útgerðir geyma aflaheimildir fyrir aðrar útgerðir og það er ekkert í gildandi lögum sem bannar það og við þekkjum það.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur mikið rætt um það atriði sem nefnt er í athugasemdum við þetta lagafrumvarp þar sem segir að nokkur brögð munu vera að því að útgerðir hafi ekki gert upp við áhafnir í samræmi við gerða samninga um fiskverð. Þetta er út af fyrir sig enginn nýr sannleikur. Þetta er auðvitað eitt af því sem Verðlagsstofa skiptaverðs hefur komið auga á og hefur verið að reyna að taka á með þeim tiltæku úrræðum sem hún hefur haft og það hefur verið reynt að bregðast við þessu með ýmsum hætti eins og við þekkjum. Þetta er heldur ekki nýtt í þessum þingsal. Hér hefur því oft verið haldið fram að verið sé að brjóta á samningum og á þessum lögum og það hefur verið hvatt mjög til þess og verið kallað mjög eftir því að ráðherrann legði fram einhver mál sem tækju einmitt á þessu. Með því frumvarpi sem hér liggur fyrir og við erum að ræða er verið að reyna að freista þess. Með öðrum orðum er verið bregðast við áhyggjum manna sem hafa komið fram hér í þingsalnum og það er verið að bregðast við ábendingum sem við sjáum vegna þess að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur komið auga á þar sem ekki er farið að gildandi lögum og samningum. Ég tók það hins vegar fram að ég teldi á grundvelli þeirra upplýsinga sem ég hefði að í langflestum tilvikum væru menn auðvitað að fara að gildandi lögum og samningum en undantekningartilvik kynnu að vera til staðar og þá reynum við að bregðast við þeim.

Hv. þm. Jón Gunnarsson velti því mjög mikið fyrir sér hvort ekki væru í gildandi lögum nægjanlegar heimildir til að gera það sem við erum að freista að gera með þessu frumvarpi, þ.e. að útbúa Verðlagsstofu skiptaverðs með þeim tækjum að geta annars vegar farið ofan í einstök mál, rannsakað þau, haft frumkvæðið að því að rannsaka þau og síðan brugðist við ef hún kæmi auga á að ekki væri farið að gildandi lögum og samningum. Það er alveg rétt að gildandi lög um Verðlagsstofu skiptaverðs hafa í meginatriðum reynst vel og það er ekki prívatskoðun mín, það er m.a. skoðun þeirra aðila vinnumarkaðarins í útgerðinni og sjávarútveginum sem vinna samkvæmt þessum lögum, þ.e. útvegsmenn og sjómenn. Þeir hafa talið að í meginatriðum reyndust lögin vel og það er t.d. álit formanns Sjómannasambandsins að það hafi dregið mjög mikið úr því að menn væru með einhverja misbeitingu gagnvart sjómönnum varðandi kvótakaupin og það er vissulega vel. Eins og ég undirstrikaði áðan þá eru hins vegar tiltekin tilvik þar sem menn hafa talið að farið væri á skjön við lögin og með þessu frumvarpi erum við að reyna að bregðast við því og reyna að skerpa möguleika Verðlagsstofunnar til að taka betur á málum.

Í fyrsta lagi er verið að reyna að setja Verðlagsstofu fyrir um það að hafa beinna frumkvæði að því að fylgjast með og fara í eftirlit. Það er rétt að Verðlagsstofa hefur auðvitað gert það með ýmsum hætti, m.a. farið í úrtaksathuganir en þarna er verið að reyna að skerpa á þeirri hugsun sem ég hygg að hafi legið á bak við þessa lagasetningu að Verðlagsstofa ætti að reyna að fylgjast með þessu. En það er ekki nóg að geta fylgst með. Það þarf auðvitað líka að setja inn ákvæði sem gera það að verkum að Verðlagsstofan fái tækifæri til að bregða fæti fyrir það ef menn eru að reyna að misnota eða fara á skjön við lögin sem eru í gildi og þá samninga sem eru í gildi. Það er m.a. gert með því að Verðlagsstofan fær þessa heimild til að stöðva aflatilfærslur eða aflakvótatilfærslur frá einni útgerð til annarrar og þá er auðvitað ljóst mál að viðkomandi útgerð verður að bregðast við því. Hún verður að leiðrétta það ef hún er með einhverjum hætti að framkvæma samninga og lög öðruvísi en hún ætti að gera. Það er það sem liggur til grundvallar.

Ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag að gert er ráð fyrir því að menn framvísi fiskverðssamningum. Það gera menn í upphafi úthalds. Síðan er það ekki þannig að menn þurfi stöðugt að vera að endurnýja slíka fiskverðssamninga. Fiskverðssamningur t.d. sem er alveg fullgildur gagnvart Verðlagsstofu getur falið það eitt í sér að það liggi fyrir að afli sé seldur á fiskmarkaði. Fiskverðssamningur getur t.d. falið það í sér að það skuli gert upp a.m.k. í samræmi við verðlagningu Verðlagsstofu skiptaverðs. Það er auðvitað gildur fiskverðssamningur. Tilgangurinn með þessu er að reyna að sjá til þess að síðan verði farið með reglubundnum hætti í að skoða nákvæmlega hvort menn uppfylli þetta í praxís. Ef í ljós kemur að svo er ekki þá er gripið til tiltekinna úrræða.

Það er ekkert óeðlilegt við það að löggjafinn feli tiltekinni stofnun að hafa slíkt eftirlit en hv. þm. Jón Bjarnason gerði dálítið mikið úr því í seinni ræðu sinni. Við erum með alls konar eftirlitsstofnanir. Við erum með samkeppniseftirlit og við erum með skatteftirlit. Þessum eftirlitsstofnunum er búið heilmikið vald í hendur. Þær hafa vald til þess að fara inn í bókhald, þær hafa vald til að kalla eftir gögnum af alls konar toga. Það þekkja einstaklingar sem fá oft beiðnir um frekari gögn frá skattinum o.s.frv. Í þessu felst að löggjafinn afhendir þessum eftirlitsstofnunum þetta vald. Síðan getur auðvitað komið upp að um sé að ræða mál af þeirri gerð og því tagi að ástæða sé talin til þess af umræddum eftirlitsstofnunum að vísa málinu til lögregluyfirvalda, til saksóknara, til lögreglunnar ef um það er að ræða. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að það hafi gerst á þessum grundvelli. Við þekkjum að vísu dæmi um brot á fiskveiðilöggjöfinni en mig rekur ekki í fljótu bragði minni til að það hafi byggst á þessari löggjöf heldur á einhverju öðru.

Ég held að ég hafi farið yfir helstu spurningarnar um þetta. Ég vil þó segja það almennt að ég tel að þessi löggjöf hafi í heild sinni virkað eins og til var ætlast. Hún varð til, eins og menn muna, sem viðbrögð í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna og það hefur komið fram. Þeir hafa auðvitað aðild að þessu því í úrskurðarnefnd eru fulltrúar sjómanna og útvegsmanna. Við vitum að verðlagningin sem Verðlagsstofa skiptaverðs byggir sitt á byggir á verðþróun sem er á erlendum og innlendum fiskmörkuðum. Það er auðvitað ákveðin tímatöf í því en við sjáum það hins vegar á fiskverðsþróuninni á síðustu 12 mánuðum, ef við tækjum t.d. það tímabil, þá hefur orðið gífurleg hækkun líka á verði Verðlagsstofu skiptaverðs en það er hins vegar alveg rétt að það er auðvitað lægra en gerist og gengur á fiskmörkuðum. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt. Það er í samræmi við lög og reglur og það byggir á einhverjum samningum milli þeirra sem kaupa fisk og selja fisk og þarna er hins vegar verið að bregðast við þegar um það er að ræða, þær aðstæður sem oft eru, að eigandi skips og eigandi fiskverkunar er einn og sami aðili. Það er hins vegar miklu stærra mál. Ég er algerlega ósammála þeim sem hafa talað um að það eigi að banna mönnum að hafa þetta fyrirkomulag. Ég tel að það eigi ekkert að skilja þarna á milli veiða og vinnslu. Ég tel að það séu einmitt mjög mikil rök með því að hafa náin tengsl veiða og vinnslu og það sé ein forsendan fyrir því að við náum meiri árangri á erlendum mörkuðum en margar aðrar samkeppnisþjóðir okkar svo sem eins og Norðmenn sem hafa ekki búið við þetta fyrirkomulag þar sem menn geta tryggt framboð af afurðunum með öruggum hætti inn á markaðinn. Það hefur auðvitað verið forsendan fyrir því að víða um land er núna hægt að halda uppi heilsársstarfsemi í fiskvinnsluhúsunum vegna þess að það eru þessi sterku tengsl á milli útgerðar og fiskvinnslu. En, virðulegi forseti, ég ætla ekki að fara út í þá umræðu í heild sinni.

Ég held að það sem hér um ræðir sé fyrst og fremst viðleitni til að styrkja ákveðna lagasetningu sem á sínum tíma var sett til að eyða tortryggni í verðlagningu á sjávarafurðum milli sjómanna og útvegsmanna. Í meginatriðum hefur það tekist vel. Hérna er verið að reyna að setja öflugri tæki til annars vegar að fylgja þessu eftir og hins vegar til að bregðast við og koma þannig í veg fyrir að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum sem mér hefur heyrst að væri almennur skilningur á. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta frumvarp verður til þess að tryggja betur en áður var það sem er eðlilegur hlutur í verðmyndun okkar og eðlilegur hlutur í samskiptum útgerðarmanna og sjómanna.