133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:58]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski vegna þess að hv. þingmaður var svo lengi kennari og skólastjóri að hann hefur kannski frekar tamið sér að prédika en hlusta. Ég var að reyna að svara þessari spurningu hv. þingmanns rétt áðan. Hann spurði mig að því hversu oft þetta hefði orðið að lögreglumáli. Ég sagði honum að mig ræki ekki minni til þess að slík mál hefðu orðið að lögreglumáli en það gæti vel verið að svo hefði verið. Ég fór í nokkuð ítarlegu máli yfir það í svari mínu áðan að það væri þannig að löggjafinn, Alþingi Íslendinga, ákvað að eftirlit með þessu tiltekna máli sem við erum að fjalla um væri falið Verðlagsstofu skiptaverðs. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur síðan farið yfir einstök mál. Verðlagsstofa skiptaverðs hefur m.a. komist að því að það eru nokkur brögð að því að menn hafi ekki farið eftir lögum og reglum sem við höfum sett á Alþingi og sem samið hefur verið um í samningum sjómanna og útvegsmanna. Þá hefur verið brugðist við. Það er síðan niðurstaða okkar sem höfum verið að skoða þetta og þar á ég líka við fulltrúa sjómannasamtakanna og útvegsmenn að það væri betra til að ná þeim markmiðum sem við værum að setja okkur í þessum lögum að skerpa á tilteknum ákvæðum sem verið er að gera í því lagafrumvarpi sem nú er til umræðu, til að tryggja að Verðlagsstofa skiptaverðs hafi þau tæki og það afl sem hún þarf til þess að bregðast við þegar upp koma mál af því taginu þar sem menn fara ekki eftir samningum og ekki eftir lögum. Það er það sem verið er að gera hér. Það er verið að afhenda þessari stofnun tiltekið eftirlitsvald, alveg eins og við gerum varðandi ýmsar aðrar eftirlitsstofnanir í landinu og ég hef ekki heyrt hv. þingmann kvarta undan því að þær eftirlitsstofnanir hefðu allt of mikið vald til að bregðast við ef væri verið að ræða um mál sem sneri að því verkefni sem þeim væri falið. Þetta mál finnst mér vera tiltölulega einfalt og einfalt að svara því en ég er alveg tilbúinn til þess. Ég hef eina mínútu til þess á eftir að endurtaka svar mitt ef hv. þingmaður krefst þess að ég geri það með því að tvíspyrja um spurningar sem ég er þegar búinn að svara.