133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:05]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega rétt sem hv. þingmaður sagði að Verðlagsstofa skiptaverðs hefur býsna rúmar heimildir til að hefja afskipti af málum. Það vitum við. Þess vegna vitum við að starfsemi Verðlagsstofu skiptaverðs hefur haft jákvæð áhrif, m.a. vegna þess að hún hefur haft þessi tiltæku úrræði.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort núgildandi lög væru nægilega skýr hvað þetta áhrærir. Mitt svar er nei. Lögin eru ekki nægilega skýr og þess vegna erum við að flytja þetta frumvarp. Ég legg þetta frumvarp fram vegna þess að það er mat mitt að það þurfi að skerpa á þessu, gera lögin skýrari þannig að þau nái markmiðum sínum. Ef sjómaður kvartar eða önnur ábending kemur um að ekki sé farið að þessum lögum þá hefur Verðlagsstofa skiptaverðs auðvitað sjálfstætt vald til þess að bregðast við því ef hún telur ástæðu til þess. Það verður hins vegar auðvitað að vera mat hennar og byggt á þeim gögnum sem fyrir hana eru lagðar hversu langt hún vill ganga og auðvitað verður að gæta þarna ákveðins meðalhófs og það er m.a. vikið að því í frumvarpinu. Vitaskuld er það ekki þannig að hún eigi að ganga um, vaðandi inn um fyrirtæki og gera allar hundakúnstir algerlega að tilefnislausu. Hún verður að hafa eitthvert tilefni til þess að bregðast við. Ég geri ekki ráð fyrir að slík tilvik komi upp en ef um það er að ræða að sjómaður kvartar og telur að það sé verið að brjóta á sér, þá hlýtur það að vera skoðað af Verðlagsstofu með þeim hætti að þarna sé um að ræða rökstudda ábendingu sem hún hlýtur að bregðast við. Þarna gefst Verðlagsstofu tækifæri til þess að gera það, fá þær upplýsingar sem á þarf að halda, bregðast þá við með þeim tækjum sem þarna er verið að reyna að leggja þeim í hendur með frumvarpinu.