133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:07]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í seinna andsvari upp á eina mínútu gefst ekki tími til þess að ganga hart eftir svörum og því ætla ég að láta hér staðar numið og halda frekar áfram í vinnunni í sjávarútvegsnefnd þar sem við hljótum að kalla til aðila til að fara yfir það hvort núverandi heimildir séu ekki nægjanlega rúmar fyrir Verðlagsstofu skiptaverðs. Ef við komumst að því þar eins og ráðherra virðist hafa komist að, að heimildirnar séu ekki nægilega rúmar, þá munum við að sjálfsögðu leita leiða til þess að lagfæra það þannig að þessi mikilvæga stofnun geti sinnt hlutverki sínu.

Varðandi umræðuna áðan um vistun aflaheimilda þá hefur maður oft velt því fyrir sér og jafnað því kannski til þess að verslun geti flutt lager yfir áramót yfir á aðra verslun og það breyti ekki neinu í bókhaldi hvorugrar verslunarinnar þó að verslunin sem vistaði vöruna í einhvern ákveðinn tíma geti selt hana og síðan pantað inn síðar og skilað. Auðvitað hlýtur þetta að vera svolítið undarleg bókhaldsæfing að flytja verðmæti svona á milli fyrirtækja.