133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:09]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki úr hófi að lengja þessa umræðu. Hér spunnust hins vegar áðan umræður um afstöðu einstakra flokka og hreyfinga sem áttu fulltrúa í stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra. Hv. þm. Jón Bjarnason spurði hæstv. sjávarútvegsráðherra út í það hverjir það væru sem hefðu stöðvað framgang þess að í stjórnarskrána yrði tekið upp ákvæði um þjóðareign úr sameiginlegum auðlindum. Hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði því til að hann vissi ekki betur en stjórnarskrárnefnd sæti enn að störfum. Þetta svar er í svipuðum anda og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra gaf hér fyrir nokkrum vikum þegar hv. þm. Jóhann Ársælsson spurði hins sama, þ.e. hvað ylli því að ekki væri tekið upp í stjórnarskrá þetta tiltekna ákvæði.

Ástæðan fyrir því að hv. þingmenn Jón Bjarnason og Jóhann Ársælsson með nokkurra vikna millibili inna handhafa framkvæmdarvaldsins eftir þessu er ákaflega eðlileg. Það liggur fyrir að í sáttmála ríkisstjórnarinnar er ákvæði um að báðir flokkarnir sem mynda ríkisstjórn skuli vinna að því að inn í stjórnarskrána verði tekið upp ákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum í sjó. Þess vegna var ríkt eftir því gengið, herra forseti, í stjórnarskrárnefndinni að þetta ákvæði yrði sammæli þeirra sem þar störfuðu. Það þótti eðlilegt af hálfu okkar sem þar sátum vegna þess að þar liggur fyrir að með einum eða öðrum hætti hafa allir stjórnmálaflokkarnir lýst yfir vilja til þess. Það hefur komið oft og tíðum fram hjá málsvörum Frjálslynda flokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar að þessir flokkar stjórnarandstöðunnar eru mjög fylgjandi því að þetta mál verði tekið upp. Raunar er það svo að af hálfu Samfylkingarinnar hefur þetta verið eitt helsta baráttumálið að því er varðar endurbætur á stjórnarskránni.

Það er síðan óhjákvæmilegt annað en draga þá ályktun að fyrir þessu sé líka ríkur vilji innan beggja stjórnarflokkanna. Ástæðan er sú eins og hæstv. forseti veit að á sínum tíma risu úfar innan Framsóknarflokksins um afstöðu til kvótakerfisins. Það mál var til lykta leitt innan Framsóknarflokksins með sérstakri nefnd. Formaður þeirrar nefndar og starfshóps var núverandi formaður Framsóknarflokksins Jón Sigurðsson. Sáttin sem gerð var innan Framsóknarflokksins var það að menn mundu sameinast um það innan þess flokks að ná því fram að í stjórnarskrá yrði sett skýlaust ákvæði um sameign á auðlindum í hafi. Þessu náði Framsóknarflokkurinn fram eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra veit þegar mynduð var ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Flokkarnir tveir sem mynda ríkisstjórn eru því þeirrar skoðunar líka. Það er því fullkomlega eðlilegt að spurt sé af hálfu þingmanna: Hvað olli því að ekki náðist samstaða um þetta?

Það kemur fram að hæstv. sjávarútvegsráðherra gengur sennilega í einhvers konar misskilning um störf nefndarinnar. Ég vissi ekki betur en stjórnarskrárnefndin hefði lokið störfum að sinni því sú nefnd sem starfar nú mun ekki koma saman nema einhverjar nýjar aðstæður rísi, til að gera frekari tillögur. Hún hefur gert eina tillögu eins og fram hefur komið í fjölmiðlum og það varð niðurstaða hennar að að þessu sinni væri ekki hægt að ná fram neinu öðru, til að mynda ekki sameignarákvæðinu sem hér um ræðir og hið eina sem nefndin gerði hér eftir væri að skila skýrslu til ríkisstjórnarinnar um þá áfanga sem hingað til hafa náðst. Það vill svo til að ef um einhvern misskilning er að ræða af minni hálfu þá er skammt að leita til hinnar einu uppsprettu, hins eilífa sannleika í þessu máli sem situr fyrir aftan þann sem hér talar, þ.e. hæstv. forseta sem er einmitt formaður stjórnarskrárnefndarinnar.

Frá því er hins vegar að greina að þetta mál var rætt í þaula innan stjórnarskrárnefndarinnar. Sú umræða byggði á fyrra samkomulagi sem náðist millum allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi í svokallaðri auðlindanefnd og leiddi til niðurstöðu þar sem hver einasti fulltrúi í nefndinni var sammála því að leggja til að í stjórnarskrána yrði tekið upp ákvæði af þessu tagi, utan einn sem var annar fulltrúi Framsóknarflokksins, Ragnar Árnason prófessor, og gerir nú kannski víðreist.

Það var líka niðurstaða auðlindanefndarinnar á sínum tíma að leggja til útfærslu á því hvernig slíkt ákvæði ætti að vera og að því komu m.a. menn eins og Jóhannes Nordal sem var formaður þeirrar nefndar og Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, sem lýsti á sínum tíma fyrir hönd þess flokks sem hann sat þar fyrir, yfir mikilli ánægju með þetta. Á því stigi málsins voru þess vegna allir fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna sem þá sátu á þingi sammála þessu. Þetta var grundvöllur umræðunnar í stjórnarskrárnefndinni. Á ákveðnu stigi umræðunnar var skipað í undirhóp af stjórnarskrárnefndinni þar sem nokkrir fulltrúar áttu sæti. Ég átti þar m.a. sæti og sá undirhópur fjallaði um sameignarákvæði og umhverfisverndarákvæði. Frá því er skemmst að greina, herra forseti, að innan þessa hóps varð algert sammæli um niðurstöðu. Þetta verður hægt að lesa í áfangaskýrslu sem ríkisstjórninni, eða sem hæstv. forsætisráðherra hefur þegar borist og verður væntanlega dreift í þinginu áður en þingi sleppir. Þar er m.a. að finna samkvæmt ákvörðun stjórnarskrárnefndarinnar, fundargerðir starfshópanna og líka þær tillögur sem þeir sammæltust um að yrðu sem vinnuplagg umræðugrundvöllur í nefndinni. Frá því er skemmst að greina að það varð enginn ágreiningur í þessum starfshópi. Þar urðu menn sammála um að leggja til útfærslu, í fyrsta lagi sammála um að það ætti að taka svona ákvæði upp í stjórnarskrána. Í öðru lagi sammála um að leggja til útfærslu sem var mjög svipuð því sniði sem kom frá auðlindanefndinni.

Það sem er auðvitað allra merkilegast í þessu máli og hlýtur að vera þeim manni sem velti þessu upp áðan, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, nokkurt fróðleiks- og umhugsunarefni er að þessi starfshópur starfaði undir stjórn eins þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Þannig að á því stigi sem starfshópurinn skilaði af sér til stjórnarskrárnefndarinnar þá hefði verið mjög erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að allar leiðir væru opnar fyrir stjórnarskrárnefndina til þess að ná sammæli um þetta sem hefur verið sérstakt baráttuefni Framsóknarflokksins og flestra annarra flokka en það tókst ekki. Það náðist ekki samstaða um það og er alveg óhætt að segja frá því að það var rökstutt með þeim hætti að aflmiklar hreyfingar sem áttu fulltrúa í stjórnarskrárnefndinni töldu að það væri ekki rétt nálgun að vinnunni að taka þetta eitt út úr, ásamt þeirri breytingu sem lögð var til og fram hefur komið í fjölmiðlum að á að vera á 79. gr., heldur þyrfti það að bíða með öðru heildarendurskoðunar á stjórnarskránni. Ef ég þýði þetta bara yfir á mál mæltrar alþýðu þá þýðir þetta að það eru auðvitað stjórnmálaflokkar sem eiga fulltrúa í nefndinni sem vilja nota þetta sem vogarafl gegn öðru sem á að breyta einhvern tíma síðar í stjórnarskránni, hugsanlega gagnvart málskotsrétti forseta, ég veit það ekki og geri mér engar getgátur um það.

En þetta vil ég bara að komi hér fram út af því að hæstv. sjávarútvegsráðherra virtist telja að starfi stjórnarskrárnefndarinnar væri ekki lokið og það var a.m.k. erfitt fyrir mann með takmarkaða meðalgreind alþingismanns eins og mína, að skilja annað en hæstv. sjávarútvegsráðherra teldi að enn væri möguleiki að nefndin ynni þetta áður en kjörtímabilinu lyki. Svo er ekki, ekki miðað við núverandi stöðu í nefndinni. Það þyrfti þá að koma til einhvers konar íhlutun og sammæli fleiri en okkar sem í nefndinni sátum. Þetta vil ég segja, herra forseti, vegna þess að þetta er það sem kemur fram í áfangaskýrslunni sem þegar hefur verið afhent forsætisráðherra og það er ekki svo að það séu fyrirhugaðar einhverjar frekari breytingar eða frekari tillögur af hálfu nefndarinnar. Ég hef a.m.k. ekki sem annar fulltrúi Samfylkingarinnar skilið það svo.