133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:24]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrir mér er þetta grafalvarlegt mál. Flokkur getur haft þá afstöðu að ekki eigi að binda þetta í stjórnarskrá og þá segir hann það. Þá semur hann ekki um það í stjórnarsáttmála að gera það. Þá hefur hann einungis þessa afstöðu til hlutanna og þá kemur það bara skýrt fram. Þó við séum ekki sammála því þá er það samt heiðarlegt.

Hv. þingmaður minntist á vinnuplögg í stjórnarskrárnefnd. Ég velti því fyrir mér hvort stjórnarsáttmálinn hafi ekki farið sem vinnuplagg til stjórnarskrárnefndar, stjórnarsáttmáli Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þar sem þetta stendur skýrum stöfum. Það hefði átt að auðvelda stjórnarskrárnefnd að komast að niðurstöðu. Ekki hefði þurft að ræða hvort einn sjálfstæðismaður væri formaður nefndarinnar frekar en annar. Fyrir lægi yfirlýst, samþykkt og undirrituð stefna viðkomandi flokks. Við getum svo velt því fyrir okkur að einn þingmaður Framsóknarflokksins hafði það sem ástæðu fyrir því að ganga úr flokknum að Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin hefðu ekki staðið við stjórnarsáttmálann hvað þetta varðaði. Það var mat hans.

Mér finnst það mjög alvarlegt sem hér var verið að upplýsa að þetta grundvallaratriði — þetta er grundvallaratriði fyrir það mál sem við ræðum hér, um stjórn fiskveiða, — skuli ekki hafa gengið fram með þeim hætti sem allir flokkar voru búnir að skuldbinda sig til. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skuldbundu sig til þess í undirrituðum stjórnarsáttmála. Mér finnst þetta alvarlegt mál. Menn geta velt því fyrir sér hvaða orð á að nota um það þegar ekki er staðið við, að því er virðist af ráðnum hug, undirskrifað plagg eins og maður gæti haldið að stjórnarsáttmáli tveggja flokka ætti að vera.