133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:35]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Birgi Ármannsson um það hvað fór fram í nefndinni. Rituð orð tala fyrir sig sjálf. Von bráðar kemur það fram með mjög skýrum hætti hvers eðlis umræðurnar í þeim starfshópi sem ég er að vitna hér til voru. Ástæðan er sú að haldnar voru ítarlegar fundargerðir og þær voru sendar út með sérstökum tölvupóstum frá starfsmönnum undirhópsins þar sem óskað var eftir athugasemdum þannig að þetta eru leiðréttar fundargerðir. Sérhver fundarmanna, þar á meðal fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur haft tækifæri til að leiðrétta þær.

Sá var munurinn á þessari nefnd og þeim tveimur öðrum sem störfuðu eða undirhópum undir stjórnarskránni að hún skilaði tillögu og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þar var ekki um að ræða eitthvað sem varð að formlegri tillögu stjórnarskrárnefndar en það var formleg tillaga undirhópsins til stjórnarskrárnefndarinnar (Gripið fram í.) og þar birtist útfærslan á slíku sameignarákvæði sem allir stóðu að og þegar lokagerð þeirrar tillögu til stjórnarskrárnefndarinnar var send út af hálfu starfsmanns nefndarinnar var óskað sérstaklega eftir athugasemdum við hana og hvort ekki væru allir sammála því. Þegar nefndinni barst þetta í hendur var þar því um að ræða formlega tillögu frá þessum undirhópi. Undirhópurinn starfaði undir forustu hv. þm. Bjarna Benediktssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokksins, þannig að þetta liggur alveg ljóst fyrir. Hvað gerðist síðan, hugsanlega einhvers staðar annars staðar í einhverjum öðrum húsakynnum en ég hef fengið að vera í á meðan þær ákvarðanir voru teknar, veit ég ekki en ég veit að enginn í undirhópnum var á móti þessu. Svo breyttust málin þegar þetta kom inn á borð stjórnarskrárnefndarinnar. Ég veit ekki af hverju.