133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[22:57]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 961 sem er 643. mál þingsins. Um er að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Frumvarpinu er ætlað að vera liður í baráttunni gegn ólöglegum veiðum erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni og sérstaklega utan hennar, þ.e. á úthafinu, en með frumvarpinu er stefnt að því að skapa enn tryggari grundvöll og fjölga þeim úrræðum sem íslenskum stjórnvöldum eru tæk í baráttunni við að uppræta ólöglegar fiskveiðar á úthafinu.

Ólöglegar og óábyrgar veiðar eru alþjóðlegt vandamál og ljóst er að árangur næst ekki í baráttunni gegn þeim nema í náinni samvinnu ríkja og með fullnægjandi lagalegum heimildum til að taka á málum sem upp koma í tengslum við ólöglegar veiðar. Á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana, Sameinuðu þjóðanna sem og á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, FAO, hafa aðildarríki samþykkt margháttaðar reglur sem ætlað er að sporna gegn ólöglegum og óábyrgum veiðum hentifánaskipa á úthafinu. Er m.a. um að ræða reglur sem taka til skipa sem staðin hafa verið að ólöglegum veiðum á úthafinu og verið færð á svokallaða „svarta lista“ svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana. Meðal reglna sem samþykktar hafa verið á vettvangi svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana eru bann við komu umræddra skipa til hafna aðildarríkja þeirra, bann við þjónustu við þau, bann við að færa þau á fána aðildarríkja og tilmæli um að fyrirtæki eigi ekki í viðskiptum með sjávarafla sem er upprunninn með ólöglegum veiðum.

Ljóst er að til að unnt sé að framfylgja fjölþjóðlegum reglum sem samþykktar hafa verið í baráttunni gegn ólöglegum veiðum hér á landi verður íslensk löggjöf að vera þannig úr garði gerð að stjórnvöld hafi lagaheimildir til að grípa til þeirra úrræða sem talin eru nauðsynleg og lögð hafa verið til á þeim vettvangi. Í lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, eru nokkur slík ákvæði en ekki er þar að finna öll þau úrræði sem lögð hafa verið til á framangreindum vettvangi.

Frumvarp þetta er byggt á vinnu starfshóps fulltrúa frá sjávarútvegs-, utanríkis-, dómsmála- og samgönguráðuneyti sem sjávarútvegsráðherra skipaði 24. nóvember 2006. Starfshópnum var ætlað að fara yfir íslenska löggjöf og gera tillögur um breytingar og viðbætur sem er ætlað að tryggja betur lagalegan grunn Íslands í baráttunni við að uppræta ólöglegar fiskveiðar á úthafinu. Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum sem heyra undir sjávarútvegsráðuneytið um þau úrræði sem tillögur hafa verið gerðar um á fjölþjóðlegum vettvangi og af áðurnefndum starfshópi en ekki hafa þegar verið lögfest eða nauðsynlegt þykir að hafa skýrari lagaheimildir fyrir. Á þessu stigi eru hins vegar ekki lögð til í frumvarpinu öll þau úrræði sem starfshópurinn hefur haft til skoðunar og er það m.a. vegna skuldbindinga Íslands samkvæmt alþjóðasamningum og óvissu um réttarstöðu einstakra ríkja á úthafinu að þjóðarétti sem þarfnast frekari skoðunar og samráðs en um það vísast til greinargerðar sem fylgir frumvarpinu. Þá eru nokkur úrræði sem til greina kemur að grípa til í þessari baráttu á verksviði annarra ráðuneyta sem aðild eiga að starfshópnum og eru þau til skoðunar í viðkomandi ráðuneytum. Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru eftirfarandi:

1. Orðalag 2. mgr. 3. gr. laganna er skýrt frekar með tilliti til skipa sem skráð hafa verið hjá svæðisbundnum fiskveiðistjórnarstofnunum fyrir ólöglegar veiðar og ekki sigla undir fána aðildarríkja þeirra. Tekið er sérstaklega fram að þau skip falli undir ákvæði greinarinnar. Hér er átt við skip á svonefndum „svörtum listum“.

2. Lagt er til að lögfest verði nýtt ákvæði í 2. mgr. 3. gr. laganna um að heimilt sé að grípa til tiltekinna viðurlaga gegn erlendum skipum sem notuð hafa verið til brota við veiðar, þ.e. komist slík skip af einhverjum ástæðum til hafnar sé þeim óheimilt að landa eða umskipa afla í íslenskri höfn og vísa skuli þeim úr höfn að lokinni skoðun eftirlitsmanna og eftir atvikum að fenginni neyðaraðstoð.

3. Orðalag 2. mgr. 3. gr. laganna er gert skýrara að því er varðar tiltekin viðurlög sem þar er nú þegar kveðið á um, þ.e. að óheimilt sé að veita skipum sem notuð hafa verið til brota við veiðar, skipum sem flytja afla þeirra, skipum sem þjónusta þau, sem og útgerðum þessara skipa, þjónustu, þar með talið í íslenskum höfnum, í fiskveiðilandhelgi Íslands og utan hennar.

4. Lagt er til að lögfest verði í 2. mgr. 3. gr. laganna ákvæði um að kaupendum afla, svo og umboðsmönnum, útflytjendum, flutningsaðilum, bönkum, lánastofnunum og opinberum stofnunum sé skylt að láta sjávarútvegsráðuneytinu eða Fiskistofu í té, ókeypis og í því formi sem þessi stjórnvöld ákveða, allar þær upplýsingar sem unnt er að láta í té og nauðsynlegar eru taldar vegna eftirlits með framkvæmd framangreindra ákvæða.

5. Loks er lagt til að lögfest verði nýtt ákvæði í 1. mgr. 6. gr. laganna þess efnis að Fiskistofu sé óheimilt er að gefa út tímabundin leyfi til erlendra skipa til veiða í fiskveiðilandhelginni samkvæmt ákvæðinu ef þau hafa verið notuð til brota gegn lögunum, öðrum lögum um fiskveiðar, stjórnvaldsreglum settum með heimild í þeim, reglum svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana og/eða milliríkjasamninga. Áfram verður hins vegar í gildi sá fyrirvari sem er í 4. mgr. 3. gr. laganna um að framangreind úrræði takmarki ekki rétt erlendra skipa til löndunar, umskipunar eða þjónustu hér á landi samkvæmt alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að eða að gildandi þjóðarétti.

Hæstv. forseti. Þessu frumvarpi er eins og áður segir ætlað að vera liður í baráttunni gegn ólöglegum veiðum erlendra skipa í fiskveiðilandhelginni og utan hennar og skapa þannig enn tryggari grundvöll og fjölga þeim úrræðum sem íslenskum stjórnvöldum eru tæk í baráttunni við að uppræta ólöglegar fiskveiðar á úthafinu. Það er ljóst að það er mikið hagsmunamál fyrir Ísland að verndun og sjálfbærri nýtingu fiskstofnanna sé ekki ógnað með veiðum og þannig grafið undan þeim stjórnunarráðstöfunum sem hafa verið samþykktar á vettvangi þar til bærra svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana. Jafnframt eru í húfi umtalsverðir fjárhagslegir hagsmunir þeirra aðila, íslenskra og erlendra, sem hafa rétt til veiða á stofnum á úthafinu. Þegar litið er til þessa vænti ég þess að víðtæk sátt geti orðið um þetta frumvarp á Alþingi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegsnefndar.