133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:03]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að fara yfir frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Það vakti athygli mína að í 1. gr. lagatextans sem verið er að leggja til að tekin verði upp í lög, þar er einnig talað um „utan landhelgi“ en lögin heita: um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Spurning er því hvort ekki þurfi að eiga eitthvað við nafnið á lögunum líka. En það er nú kannski minna mál.

Það er eitt sem ég þarf að spyrja hæstv. ráðherra um. Þegar verið er að setja svona reglur, hertar reglur, eins og hér er verið að gera og herða á þeim varðandi erlenda aðila sem veiða, t.d. úr stofnum sem bæði veiðast innan landhelgi og utan og ekki hafa verið gerðir samningar milli ríkja um þær veiðar, er þá ekki nauðsynlegt að við séum í stakk búin til að framfylgja lögunum? Telur hæstv. ráðherra að Landhelgisgæslan sé nægilega vel í stakk búin til að framfylgja þessum lögum? Hún er jú okkar lögregla á hafinu.

Það verður að segjast eins og er að það er til vansa fyrir ríkisstjórn Íslands hve lágar fjárveitingar hafa verið til Landhelgisgæslunnar, hvernig búið hefur verið að henni hingað til og þeim búnaði sem hún hefur til að sinna gæslu og björgunarstörfum á úthafinu. Þess vegna held að það skipti okkur miklu máli áður en við förum að setja svona lög, eða herða á lögum, að þeir sem eiga að sjá um að framfylgja lögunum séu í stakk búnir til að gera það og því væri gott að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki nauðsynlegt í framhaldi af þessum lögum eða um leið og þau eru sett, að stórefla Landhelgisgæsluna þannig að hún geti sinnt því hlutverki að vera bæði lögregla, eftirlitsaðili og ekki síður öryggis- og björgunaraðili á úthafinu.