133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:09]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Reynslan hefur einfaldlega sýnt okkur að það er mjög nauðsynlegt að geta aflað þeirra upplýsinga sem kveðið er á um í þessu frumvarpi frá þeim aðilum sem hérna eru taldir upp. Við höfum m.a. séð það á síðastliðnu ári að það var nauðsynlegt að hafa upplýsingar um þætti sem lúta að bankaviðskiptum. Það er þess vegna mikilvægt að þessar heimildir séu til staðar. Það er eðlilegt að eftirlitsstofnanir eins og eftirlitsstofnanir okkar sem eiga að hafa þetta hlutverk geti kallað eftir slíkum upplýsingum og þurfi ekki að greiða fyrir það. Jafnvel þótt síðar komi í ljós að meint brot eða ætlað brot hafi verið ástæðulaust. Þetta þekkjum við bara í öðrum eftirlitsstofnunum okkar og það er engin ástæða til að hafa þetta öðruvísi hér. Það er nauðsynlegt að hafa þetta ákvæði og láta það virka.

Varðandi þetta með skipin þá er það einfaldlega þannig og við þekkjum dæmi um það, að þeir aðilar sem hafa stundað þessar ólöglegu veiðar hafa verið að flagga skipum á milli landa og hefja útgerð í nafni nýrra aðila og þannig reynt að komast fram hjá því, þeir skrá skipin upp á nýtt, í nýju landi, nýju fánaríki og hefja síðan veiðarnar aftur.

Við sjáum að ef við ætlum að reyna að ná utan um þetta þá er ein aðferðin sú einmitt að reyna að búa til aukinn fælingarmátt þannig að menn geti ekki gert þetta. Það er það sem þarna er verið að reyna að gera. Að reyna að koma í veg fyrir að menn komi síðan með skipin sín undir fölsku flaggi frá öðrum þjóðum eða í nýrri útgerð og að þeir sem eru að kaupa þessi skip geri sér grein fyrir því að búið er að setja skipin á þennan svokallaða b-lista, þau eru komin á svartan lista hjá alþjóðlegu stofnunum, að þar með lækkar verðmæti þessara skipa.

Það er einn þátturinn í þeirri fælingu sem við erum að reyna að framkvæma með þessu frumvarpi. Við erum að reyna að árétta það vegna þess að það er mikið í húfi fyrir okkar útgerðir, sjómenn og þjóðarbúið.