133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:16]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög fróðlegt, hv. þingmaður er hér með að greina frá því að Magnús Þór Hafsteinsson hafi horfið frá þessu sjónarmiði sínu sem hann sagði frá í fjölmiðlum. Þetta er í fyrsta skipti sem það hefur komið fram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við leggjum þetta á minnið vegna þess að þetta eru heilmikil tíðindi. Hv. þingmaður er með öðrum orðum að greina frá því í ræðu sinni að varaformaður Frjálslynda flokksins hafi við frekari yfirlestur gagna komist að þeirri niðurstöðu að allt sem hann sagði væri algerlega rangt. Það átti ekki að beita klippunum og það var í samræmi við alþjóðleg lög að þessi skip væru þarna að veiðum.

Að vísu segir hv. þm. Sigurjón Þórðarson síðan að engu að síður eigi að beita þessa menn hörðu af því þeir séu í samkeppni við okkur þó að hann telji samt sem áður að þeir séu að veiða í samræmi við alþjóðleg lög. Þeir eru ekki að veiða í samræmi við alþjóðleg lög, þeir eru að brjóta þau. Það er álit allra þeirra ríkja sem hafa komið að þessu. Þetta er álit alþjóðasamfélagsins sem vill umgangast þessa auðlind af einhverri ábyrgð. Við Íslendingar erum einfaldlega að fylgja eftir þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram í vaxandi mæli á alþjóðlegum vettvangi og við höfum verið þar í forustu sem betur fer og eigum að fylgja því eftir og eigum að hafa áfram forustu í þessum málum.