133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:17]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef svolítinn áhuga á að fá að vita meira hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra um þá hugmynd að klippa trollin aftan úr þeim skipum sem stunda veiðar með ólöglegum hætti að mati hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég fékk upphringingu frá fjölmiðlum einhvern tímann í sumar og var spurður um afstöðu mína til þess. Ég vildi ekki gefa út þá yfirlýsingu að ég vildi láta klippa aftan úr skipum á alþjóðlegum hafsvæðum. Ég taldi það vera í hæsta máta vafasamt að við gætum tekið að okkur eftirlit og aðgerðir með þeim hætti á alþjóðlegum hafsvæðum.

Ég geri ráð fyrir því vegna þess hve menn tóku jákvætt í þetta þegar þessi umræða stóð, bæði Landssamband íslenskra útvegsmanna og ýmsir stjórnmálamenn, að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi látið fara yfir það hvort við gætum virkilega beitt slíkum aðferðum. Ég er ekki að útiloka að slíkt sé gert ef menn telja mögulegt að gera það innan ramma eðlilegra laga og við séum þá ekki að brjóta einhver lög og alþjóðlega samninga með slíku háttalagi.

Ég spyr hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort fjallað hafi verið um þetta og hver niðurstaðan hafi orðið af því. Telur hæstv. ráðherra að við getum beitt slíkum aðferðum á alþjóðlegum hafsvæðum ef okkur finnst ástæða til að gera það?