133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[23:19]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef, eins og hv. 2. þm. Norðvest., verið gætinn í orðavali í sambandi við það vegna þess að ég hef ekki treyst mér til að kveða upp úr með ákveðið svar í þessum efnum. Ég hef hins vegar sagt að tel ég ekki ástæðu til að útiloka eitt né neitt fyrir fram í þessum efnum. Auðvitað verðum við að fara að alþjóðalögum og alþjóðarétti. Ég vek athygli á því að í því frumvarpi sem við erum að ræða um er einmitt mjög ítarlega vitnað til þess að við verðum að sjálfsögðu að virða allar alþjóðlegar reglur og alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur. Því var það niðurstaða mín í haust að setja á laggirnar starfshóp nokkurra ráðuneyta vegna þess að ljóst var að málið snertir ekki bara málasvið sjávarútvegsráðuneytisins. Það snertir málasvið siglingaráðuneytisins, þ.e. samgönguráðuneytisins og það er að skoða tiltekna þætti sem geta lotið að málum sem snúa að siglingu skipa. Það lýtur líka að utanríkisráðuneytinu vegna þess að hér er um að ræða alþjóðlega samninga sem eru á forræði utanríkisráðuneytisins. Það lýtur enn fremur að dómsmálaráðuneytinu þar sem Landhelgisgæslan heyrir undir það.

Það eru einfaldlega ekki komnar niðurstöður í þetta mál að fullu og öllu. Ég taldi hins vegar ekki eftir neinu að bíða úr því að við höfðum komist að niðurstöðu í undirbúningi málsins að því sem sneri að sjávarútvegsráðuneytinu og þess vegna lagði ég fram þetta frumvarp.

Ég ítreka það að við eigum að starfa innan laga og alþjóðlegra skuldbindinga. Ég hef ekki viljað útiloka eitt né neitt í þessum efnum fyrir fram, ég tel það óráðlegt. Við eigum auðvitað að senda út þau skilaboð að við viljum ganga fram af fyllstu hörku gagnvart þessum veiðum sem sannarlega eru ólöglegar. Ég hef þess vegna ekki heldur viljað kveða upp úr um það hvort við höfum heimild til að klippa aftan úr þessum skipum, ég hef ekki komist að þeirri endanlegu niðurstöðu um það mál að ég treysti mér til að kveða upp úr um það.