133. löggjafarþing — 78. fundur,  27. feb. 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[00:01]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þetta væri m.a. gert til að vernda stofn sem væri í veikri stöðu. Nú kom fram í fréttum í kvöld að íslenski þorskurinn væri jafnvel í mjög veikri stöðu og að fara þyrfti að skera niður þorskaflaheimildir. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort nýrra tíðinda sé að vænta og hvort einhver gögn verði lögð því til grundvallar á næstu dögum vegna þess að ótíðindin sem Jóhann Sigurjónsson hjá Hafrannsóknastofnun er að fara með í kringum landið hljóta að byggjast á einhverjum gögnum sem þeir sem skoða kerfið með gagnrýnum hætti hljóta að fá að sjá.

Ég hef m.a. bent á að ósamræmi sé í niðurstöðum merkingagagna Hafrannsóknastofnunar og þeirra kenninga sem komið hafa fram um að veitt hafi verið of mikið og þess vegna sé þorskstofninn í svokallaðri lægð sem hann er sagður vera. En merkingatilraunirnar sem Hafrannsóknastofnun gerði grein fyrir rétt fyrir síðustu jól benda einmitt til þess að veitt hafi verið miklum mun minna en ráðlagt var. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni gera þessi gögn opinber að einhverju marki og gera þá einnig betur grein fyrir þessum merkingagögnum sem sýna ótvírætt að mun minna hefur verið veitt en talið var, þ.e. minna hlutfall af stofninum, vegna þess að tilraunin sýnir að miklu færri merki skila sér en ætla má út frá veiðireglunni sem stofnlíkön Hafrannsóknastofnunar ganga út á.