133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:29]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Á nýafstöðnu flokksþingi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sagði formaður flokksins, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, m.a. svo í setningarræðu sinni:

„Það eru hins vegar mikil vonbrigði hve hlutur kvenna virðist ætla að verða rýr og minnkandi hjá öðrum flokkum, með þeirri undantekningu þó að Framsóknarflokkurinn stendur sig vel að þessu leyti og er við hliðina á okkur í því að tryggja jafnan hlut kynja — ekki oft sem manni gefst færi á að hrósa Framsókn en þá er líka rétt og skylt að gera það. Þeir verða líka að eiga það sem þeir eiga, framsóknarmenn þar með talið, að það er þeim að þakka að hlutur kvenna er þó það sem hann er í ríkisstjórn.“

Það er ekki á hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að heyra að Framsóknarflokkurinn hafi gætt þess við skipan ráðherra að hlutur kvenna og karla sé jafnmikill. Þannig eru þrjár konur ráðherrar og þrír karlar af hálfu Framsóknarflokksins en fimm karlar og ein kona á vegum Sjálfstæðisflokks.

Ég vek líka athygli á því að hæstv. utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur setið lengst allra kvenna í ríkisstjórn og ef tekin eru saman samanlögð starfsár kvenna í ráðherraembætti hafa kvenráðherrar Framsóknarflokksins setið í samtals 20 ár, Sjálfstæðisflokksins í 13,75 ár og konur úr Samfylkingunni eða Alþýðuflokknum í 7,25 ár en engin kona úr Vinstri grænum eða Alþýðubandalaginu.

Ég vek líka athygli á því að af þingmönnum Framsóknarflokksins eru fimm konur, 45,4%, Samfylkingin er með svipað hlutfall, þ.e. níu konur af 19, Vinstri grænir koma þar fyrir neðan með tvær konur af fimm þingmönnum og síðan eru Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir með öllu lægra. Ef horft er til framboðslista og oddvita framboðslistanna fyrir komandi kosningar sker Framsóknarflokkurinn sig úr að þessu leyti þar sem þrjár konur og þrír karlar skipa oddvitasæti lista flokksins. Hins vegar er þetta sem svarar einni konu hjá öllum hinum flokkunum af oddvitum framboðslistanna.

Það er ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur staðið sig best í því að jafna hlut kvenna og karla í stjórnmálum á Íslandi. Það er nefnilega ekki nóg, hæstv. forseti, að tala. Það þarf líka að framkvæma. (Forseti hringir.)