133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

hlutur kvenna í stjórnmálum, tvísköttunarsamningar o.fl.

[13:33]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Nýlega féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur sem undirstrikar þá réttaróvissu sem er talin ríkja um tvísköttunarsamninga íslenska ríkisins. Vangaveltur eru uppi um hvort núverandi fyrirkomulag standist kröfur stjórnarskrárinnar en þegar slíkar pælingar koma frá dómstól eiga allir í þessum sal að sperra eyrun. Stjórnarskráin felur Alþingi skattlagningarheimildina en stjórnvöld hafa heimild til að gera þjóðréttarsamninga. Tvísköttunarsamningar hafa hins vegar þá sérstöðu að þeir eru alþjóðasamningar sem eiga að hafa bein réttaráhrif hér á landi.

Fjölmargir sérfræðingar í skattarétti hafa lýst yfir áhyggjum sínum af ástandinu og telja að það sé jafnvel rétt að tvísköttunarsamningar verði lagðir fyrir þingið og samþykktir sem lög, en það er ekki gert nú. Alþingi hefur enga aðkomu að tvísköttunarsamningum í dag. Viðskiptablaðið kallaði þetta fúsk hjá framkvæmdarvaldinu í leiðara sínum.

Herra forseti. Ég kalla eftir viðbrögðum frá hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þessa dóms en ég á ekki að þurfa að útlista þá hagsmuni sem liggja í þeim 32 tvísköttunarsamningum sem Íslendingar hafa gert. Mun hæstv. fjármálaráðherra beita sér fyrir því að tvísköttunarsamningar verði lagðir fyrir þingið og telur hæstv. ráðherra að 119. gr. tekjuskattslaga þurfi að koma sérstaklega til skoðunar í ljósi þessa nýfallna dóms?