133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:00]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hvarvetna í grannríkjum okkar hafa stjórnvöld í frammi aðgerðir til að stýra eða hafa hönd í bagga með byggðaþróun og hamla gegn því að landsvæði leggist í eyði. Nú hefur ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks setið að völdum í heil 12 ár. Á þeim tíma hefur orðið einhver mesta byggðaröskun sögunnar á Íslandi. Hér eru stór landsvæði þar sem byggð hangir á bláþræði, jafnvel á heilum landshlutum eins og á Vestfjörðum. Fólksfækkun þar er um 20%, meðaltekjur langt undir landsmeðaltali og meðalaldur stöðugt upp á við. Sömu sögu er að segja af Norðurlandi vestra, úr Dölum, úr Þingeyjarsýslum, úr Norður-Múlasýslu og af Suðausturlandi.

Jafnvel í byggðarlagi sem útnefnt hefur verið landshlutakjarni eins og Ísafjörður hefur mistekist að skapa almennar aðstæður þannig að atvinnulíf geti þrifist og þróast eðlilega. Það lafir á lyginni einni eins og nýjustu fréttir sanna. Samkvæmt mínum heimildum eru fréttir af lokun Marels á Ísafirði ekki síðustu slæmu fréttirnar sem við eigum von á af svæðinu, því miður.

En hvers vegna skyldi ástand mála vera eins og raun ber vitni á þessum svæðum? Ætli það hafi eitthvað að gera með vanrækslu Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum eða að fólki er lofað framkvæmdum fyrir kosningar sem svo eru skornar miskunnarlaust niður um marga milljarða á einu kjörtímabili? Allar á svæðum sem hallar á. Eða að enn er ekið á malarvegum á köflum hringvegarins austanlands og á aðalleiðum á Vestfjörðum eftir sextán ára þrásetu sjálfstæðismanns í stóli samgönguráðherra? Eða að þverskallast er gegn stuðningi við strandsiglingar og Evrópusambandið gert að blóraböggli þótt það sé einmitt eitt af markmiðum þess að koma flutningum á sjó og vötn?

Er þetta sinnuleysi, viljaleysi eða getuleysi? Hvers vegna er ekki gengið til samstarfs við þá sveitarstjórnarmenn sem koma hverja sendiförina á fætur annarri til stjórnvalda til að leggja áherslu á mikilvægi samgöngumála, til að leita stuðnings við hugmyndir um fjölbreyttara atvinnulíf, bjóða aðstöðu til ýmissa verka og þjónustu, með hugmyndir um nýtingu á húsnæði á landsbyggðinni?

Nei. Ráðherrar standa hér í ræðustóli og fórna höndum eins og hæstv. sjávarútvegsráðherra Einar Kristinn Guðfinnsson gerði í gær og segir þetta alþjóðlega þróun. Sem sagt, viðurkennir að þeir ráði ekki við verkefni sitt, að hann hafi gefist upp.

Ríkisstjórnin hagræðir burt af landsbyggðinni. Starfsmönnum Ratsjárstofnunar var boðin flutningsstyrkur ef þeir vildu ráða sig til starfa á höfuðborgarsvæðinu og þar með lækkuðu útsvarstekjur Bolungarvíkur um 5%. Og hæstv. utanríkisráðherra skýldi sér á bak við bandarísk stjórnvöld. Hún yppti líka öxlum og gat ekkert gert. Og íbúarnir sem biðja um að fá að sitja við sama borð og aðrir landsmenn, hvers eiga þeir að gjalda? Þeir eru ekki að biðja um ölmusu heldur almennar aðstæður til að geta bjargað sér sjálfir og í því efni hefur ríkisstjórnin heldur betur brugðist þeim.

Ég er því miður ekki búin að fá svar við fyrirspurn minni um þróun opinberra starfa á landsbyggðinni sem ég þó lagði fram fyrir nokkrum vikum. Þar veit ég að koma mun í ljós að fjöldi opinberra starfa hefur dregist stórlega saman, jafnvel þar sem ríkisstjórnin þykist ætla að byggja upp eins og á Ísafirði. Markmiðin sem sett eru fram í byggðaáætlun eru ekki sett í framkvæmd, t.d. um stuðning við atvinnumál kvenna á landsbyggðinni. Það er bara í athugun og verður þar væntanlega þar til næsta ríkisstjórn tekur við.

Unga fólkið á landsbyggðinni menntar sig eins og annað ungt fólk á landinu. En þeir sem þurfa að fara burtu til náms komast ekki til baka aftur heim né annað út á land nema í undantekningartilfellum. Það vantar viljann hjá ríkisstjórnarflokkunum til að koma upp störfum við hæfi eða skapa aðstæður til atvinnusköpunar.

Samfylkingin hefur bent á að árlega losna um 300–400 störf hjá ríkinu sem hægt er að vinna hvar sem er ef einföld grundvallaratriði eru til staðar. Samfylkingin hefur sett fram þingsályktunartillögu um að skilgreind verði öll störf á vegum ríkisins sem unnt er að vinna að mestu eða öllu leyti óháð staðsetningu, m.a. til að auka möguleika fólks á landsbyggðinni til gegna störfum á vegum ríkisins.

Beiðni um umræðuna sem nú fer fram var sett fram fyrir jól og er því ekki sett fram í tilefni lokunar Marels á Ísafirði sem þó út af fyrir sig hefði verið nóg ástæða. Hún var sett fram vegna þess að mér hefur blöskrað (Forseti hringir.) sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki um langa hríð. Ráðin til að byggja upp landsvæði eru þekkt og það er líka þekkt að ef undirstöðuatriði (Forseti hringir.) eins og ef góðar samgöngur vantar þá duga engin ráð. Ég hef lagt spurningar mínar fyrir hæstv. ráðherra.