133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:21]
Hlusta

Svanhvít Aradóttir (F):

Hæstv. forseti. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að áfram verði unnið að uppbyggingu byggðarkjarna. Eitt meginmarkmið gildandi byggðaáætlunar er að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu. Samhliða styrkingu landshlutakjarna á líka að huga heildstætt að þróun byggðar í landinu öllu og hlúa að svæðum sem standa höllum fæti, bregðast þarf við vanda þeirra byggðarlaga sem búa við mikla fólksfækkun og mynda sameiginlega framtíðarsýn.

Í framtíðarsýn fyrir hvert svæði þarf að horfa til menningar, menningararfs, félagslegra og hagrænna þátta og náttúrufars með það að markmiði að styrkja samkeppnishæfni svæðisins og skilyrði til sjálfbærrar þróunar.

Staðan hefur verið einna erfiðust hjá byggðarlögum sem liggja það fjarri þéttbýliskjörnum að ekki er hagkvæmt að sækja vinnu þangað og erfitt er um vik að njóta þeirrar þjónustu sem þar er í boði. Því er mikilvægt að huga sérstaklega að þessum byggðarlögum. Af þessum sökum var lagt til í byggðaáætlun sem samþykkt var á Alþingi vorið 2006 að gerð yrði athugun á stöðu byggðarlaga sem glímt hafa við fólksfækkun, styrkleikar þeirra og veikleikar metnir og greindir möguleikar til eflingar byggðarlaganna. Vinnan við verkefnið hófst á haustdögum 2006 og reiknað er með að niðurstöður verði kynntar síðla árs 2007. Búið er að vinna verklagsáætlun og gera tillögur um skilgreiningu þeirra svæða sem til athugunar verða, unnin verði stöðugreining þessara svæða og aflað upplýsinga um hugmyndir heimamanna til eflingar byggðarlaganna.

Að auki er í byggðaáætlun að finna fjölmörg verkefni og áætlanir um verkefni sem lúta að þessu málefni. Þar vega t.d. þungt bættar samgöngur, bætt fjarskipti, framkvæmd vaxtarsamninga o.fl. Þetta eru þau verkefni sem eru vel á veg komin. Þá er einnig rétt að benda á nokkra aðgerðaaðila (Forseti hringir.) sem hafa eflingu menntunar að meginmarkmiði, bæði með tilliti til uppbyggingar menntasetra á landsbyggðinni og til þess að styrkja menntunarsókn (Forseti hringir.) einstaklinganna á landsbyggðinni.