133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

málefni byggðarlaga utan landshlutakjarna.

[14:32]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu mikill misskilningur að stjórnvöld standi á bak við þær breytingar sem hafa nýlega verið kynntar í atvinnumálum á Ísafirði. (Gripið fram í: Það er aðgerðaleysi.) Það skiptir ekki máli í því efni að það er sérstakt fyrirtæki sem hefur sínar sérstöku aðstæður og eins og ég sagði áðan verður athugað nánar hvernig á þeim breytingum stendur þar.

Ég geri ekki lítið úr vanda margra byggðarlaga og sveitarfélaga sem hér hefur verið nefndur en ég geri mikið úr því að byggðaþróun verður ekki efld og byggðarlögum ekki hjálpað með stóryrðum einum. Það er þvert á móti þannig að víða í landinu hefur verið hagfelld atvinnuþróun, ferðaþjónustu fleygir fram, menntaþróun og samgöngum mjög víða. Það er mikill misskilningur að meta vaxtarsamninga aðeins eftir þeim fjárframlögum sem koma úr ríkissjóði. Hér var sagt að vaxtarsamningar væru lítilfjörlegir, ég er því algjörlega ósammála og það lýsir miklum misskilningi á eðli þeirra. Til dæmis er í vaxtarsamningi fyrir Austurland mikil þátttaka stofnana og fyrirtækja úr höfuðstaðnum sem leggja þar fram bæði sérfræðivinnu og fjármagn. Í vaxtarsamningi fyrir Vestfirði sem er í framkvæmd út árið 2008 er ráðstafað 75 millj. úr ríkissjóði auk 3,5 millj. frá Byggðastofnun svo að dæmi sé tekið. Auk þess er Byggðastofnun í verkefnum á Vestfjörðum með tæplega 27 millj. kr. auk lánafyrirgreiðslu, og kostuð eru 3,5 stöðugildi í háskólasetri þar.

Meginástæðurnar eins og komu fram í minni fyrri ræðu eru breytingar í samsetningu atvinnulífsins þar sem frumvinnslugreinar eru á undanhaldi og tímans vegna vil ég ljúka máli mínu með því að benda á, og endurtaka það, að það er þvert á móti svo að margvíða er ágæt atvinnuþróun á landsbyggðinni þó að svo sé ekki alls staðar. Ég vil ekki gera lítið úr vandanum (Forseti hringir.) þar sem það er ekki. Það eru mjög víðtækar og umsvifamiklar aðgerðir í gangi og háar fjárhæðir af hálfu stjórnvalda.