133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:04]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir hluttekningu í garð Sjálfstæðisflokksins fyrir að fulltrúi hans við þessa umræðu skuli hafa þetta alvarlega mál í flimtingum.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal vill finna tæknilegar hindranir og reisa tæknilega þröskulda fyrir því að þetta mál nái fram að ganga. Það var rætt við umræðuna í desember af hálfu fleiri en eins, alla vega tveggja, samþingsmanna hv. þm. Péturs H. Blöndals og samflokksmanna, að þeir vildu freista þess að endurskoða afstöðu stjórnarmeirihlutans fyrir 1. mars. Ég átti sannast von á að fá einhvern liðsstyrk frá viðkomandi þingmönnum við þessa umræðu.

Síðan er hv. þingmaður svolítið seinheppinn þegar hann talar um að ég vilji hafa vit fyrir fullorðnu fólki. Málflutningur minn gekk fyrst og fremst út á að hafa áhrif á neyslu barna og unglinga. Út á það gekk þessi málflutningur og út á það ganga ábendingar Lýðheilsustöðvar einnig. Lýðheilsustöð bendir á að þar sé um mikið verðnæmi að ræða, að lækkun á þessum drykkjum hafi veruleg áhrif á neyslu barna og unglinga á gosdrykkjum.

Á hvorn veginn sem verðinu er stýrt, hvort sem það er gert af hálfu framleiðandans eða annarra aðila, þá má segja að á einn eða annan hátt felist í því forsjárhyggja. Niðurstaðan er sú að verðið (Forseti hringir.) hefur áhrif á neysluna. Það er staðreynd.