133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:31]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hugsanlegt að við hv. þm. Birgir Ármannsson getum komist sameiginlega að þeirri niðurstöðu að hv. þm. Ögmundur Jónasson standi okkur báðum framar í reikningskúnstinni (Gripið fram í: … markaðs…) því að ég verð satt að segja að viðurkenna, frú forseti, að hv. þingmaður brást nokkuð vonum mínum. Ég taldi að hv. þingmaður væri meðal þeirra sem mætti binda mestar vonir við á sviði efnahagsmála hjá hæstv. ríkisstjórn og liði hennar en það kemur í ljós að reikningskúnst hans er ekki treystandi. Hann sagði tær og saklaus í framan í haust að breytingin mundi leiða til 16% lækkunar á kostnaði heimilanna á þessu útgjaldasviði en nú er hún allt í einu núna orðin undirorpin mati og einhverjum vísindum sem ekki eru 100%. Þar að auki heldur hann því fram að það sem var í gadda slegið og í stein klappað í haust sé nú svo óvíst að ekki nokkur maður geti reiknað sig að einhverri niðurstöðu. Það kann vel að vera rétt hjá hv. þingmanni en það var óvart allt annað sem ríkisstjórnin sagði í haust. Þá komu þeir tveir hv. þingmenn sem nú hafa báðir kvatt sér hljóðs til þess að svara mér og sögðu alveg svart á hvítu að þessar breytingar mundu leiða til 16% lækkunar á þessu útgjaldasviði. (Gripið fram í: Ekki rétt.) Það er víst rétt og það er hægt að fletta því upp í þingtíðindum. Ég minnist þess að hv. þm. Birgir Ármannsson var einn af þeim sem stóð í vörninni fyrir ríkisstjórninni þegar á þetta var deilt og við drógum það í efa.

Nú hefur hv. þingmaður allt í einu fundið upp ný vísindi sem eru þau að í rauninni séu engin algild vísindi á þessu sviði. Hv. þm. segir í dag að ekki sé hægt að reikna sig til niðurstöðu um það til hvers lagabreytingarnar leiði. Rétt er hjá honum að margt hefur áhrif á verð matvæla annað en það sem við gerum í þessum sölum en það var óvart mat hans og flokks hans á því í haust að þær aðgerðir sem hér voru samþykktar mundu leiða til þess. (Forseti hringir.) Er hann að segja núna að það mat hafi verið rangt í haust?