133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:38]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er afskaplega leiðinlegt að heyra fullyrðingar frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að ég hafi sagt eitthvað um 16% lækkun á verðlagi. Ég sagði það aldrei nokkurn tímann. Ég hafði uppi miklar efasemdir um að sú tala væri rétt. Ég spurði meira að segja hæstv. fjármálaráðherra, frú forseti, hvort hann hefði nýlega endurreiknað þá lækkun sem hann gerði ráð fyrir. Ég skil ekki þessa staðhæfingu og skora á hv. þingmann að sýna hvar ég sagði þetta, eða vera minni maður ella.

Lækkunin úr 24,5% niður í 7% er samkvæmt stærðfræðinni lækkun upp á mínus 14,056%, og með meiri nákvæmni ef menn vilja. Lækkunin úr 14% niður í 7% er lækkun upp á mínus 6,140%. Það er svo einfalt. Þetta er það sem þessar vörur ættu fræðilega séð að lækka, eingöngu út af virðisaukaskattinum. En svo voru vörugjöldin lækkuð líka og þau virka seinna. Virðisaukaskatturinn á að virka strax á fimmtudaginn, eftir tvo daga, en vörugjöldin virka seinna. Þau koma inn þegar birgðir klárast og munu koma inn á næstu 2–3 mánuðum. Síðan er algerlega óljóst hvaða áhrif tollalagabreytingarnar hafa, tollkvótabreytingarnar o.s.frv.

Svo vil ég benda á að við erum með frjálsa álagningu, við erum með frjálsan markað þannig að það sem við erum að tala um hér á sér stað á markaði sem býr við fullkomna samkeppni og því miður virðist ýmislegt benda til þess að það eigi ekki við hér, við séum ekki með fullkomna samkeppni hér á landi og kannski dálítið langt frá því.