133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:40]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sé það svo, eins og hv. þingmaður heldur fram, að hann hafi ekki viðhaft þau ummæli sem ég taldi að minni mitt hefði togað upp úr hugardjúpum mínum er mér sæmd að því að biðja hann afsökunar á því að ég hafi farið með rangt mál. Þetta var það sem mig minnti. Það breytir engu um það að þetta var það sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfir línuna sögðu, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson gekkst hóflega við áðan.

Það sem skiptir hins vegar máli er það, frú forseti, að hv. þingmaður hélt núna ræðuna sem hann átti að flytja í haust. Hv. þingmaður sagði núna að það sem ríkisstjórnin sagði, a.m.k. hæstv. fjármálaráðherra, stenst ekki. Hæstv. fjármálaráðherra hélt því fram og gekk lengra en nokkur annar í að staðhæfa að þær breytingar sem ríkisstjórnin lögfesti þá á hinu háa Alþingi með tilstyrk þingmanna leiddu til þess að matarútgjöld heimilanna mundu lækka um 16%. Þetta margtuggði hann og hélt sérstakan blaðamannafund um það mál.

Nú kemur í ljós að allan tímann hefur hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar vitað betur. Í fyrsta lagi var hann ekki sammála hæstv. ráðherra um að þessi tala, 16%, væri endilega það sem mundi nást fram. Í öðru lagi bendir hann á tvö ef ekki þrjú atriði sem hugsanlega gætu leitt til þess að þessi tala, þ.e. það hlutfall sem matarútgjöldin lækka um, verði enn þá lægri en hann gerði sjálfur skóna. Það sýnir auðvitað að hæstv. ríkisstjórn var á ákaflega hálum og veikburða ís þegar hún hélt þessu fram, en hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur staðfest að hæstv. fjármálaráðherra greindi bara ekki rétt frá stöðu mála hér í haust. Það var eðlilegt, hann var að flýta sér. Ríkisstjórnin fór á taugum vegna þess að Samfylkingin knúði hana til þessara aðgerða með forskoti sínu og (Forseti hringir.) frumkvæði á hinu háa Alþingi. Það ætti hv. þingmaður bara að viðurkenna.