133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[15:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef aldrei haldið því fram að þetta væri skattalækkun sem ekki munaði um. Ég held því einungis fram að ríkisstjórnin hafi lofað miklu meiri lækkun á matarútgjöldum heimilanna en nú er að koma fram. Samfylkingin lagði fram ítarlegar tillögur með útreikningum sem ekki voru bornar brigður á. Þeir sýndu að tillögur Samfylkingarinnar mundu lækka matarkostnað heimilanna úr 750 þús. kr. að meðaltali niður í 500 þús. kr. Þetta er ríflega fjórðungslækkun. Ríkisstjórnin greip þá til þess korteri fyrir þingbyrjun að setja fram tillögur með miklu fumi þar sem ýmislegt var tekið úr tillögum Samfylkingarinnar, annað sett fram með ákaflega óskýrum hætti og því þriðja, eins og tollalækkunum, lofað en hefur ekki enn komið til framkvæmda. Ég spyr hv. þingmann og formann efnahags- og viðskiptanefndar: Hvað munu þessar tollalækkanir (Gripið fram í.) sem hæstv. fjármálaráðherra talar svo mikið um leiða til mikillar lækkunar? Það er ekki nokkur maður sem getur svarað því og þeir sem gerst þekkja til í stétt verslunarmanna telja að það skipti ákaflega litlu máli.

Ríkisstjórnin lofaði að beita sér fyrir aðgerðum sem mundu leiða til þess að matarverð hér á landi mundi ná meðalverði á Norðurlöndum. Það vantar mikið upp á að því hafi verið náð. Það er einfaldlega að koma í ljós að sú lækkun á matarverði sem á að eiga sér stað nk. fimmtudag, 1. mars, er miklu lægri en ríkisstjórnin lofaði fyrir fram. Ríkisstjórnin lofaði upp í ermina á sér. Hún sveik, og þetta er enn eitt dæmið um vanrækslusyndir hennar. Hún hefur lofað mjög mörgu í aðfara þessara kosninga en það er fátt sem hún getur staðið við. Eins og ég sagði áðan hefur hún ekki stjórn á sínum eigin gerðum, ekki stjórn á afleiðingum sínum. Það eina sem hún hefur sterk tök á eru þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, (Forseti hringir.) þeim sem samþykktu og sögðu eitt í haust og koma nú heldur veikburða og skjálfandi og viðurkenna að það er allt öðruvísi núna.