133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:10]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson segir að hann voni að við náum einhvern tíma lengra en ríkisstjórn hv. þingmanns er búin að vera við völd í 12 ár. Það eru örfáar vikur eftir af þessu kjörtímabili og tíminn er einfaldlega að renna út hjá ríkisstjórninni. Þess vegna kemur mér það, og ég ítreka það, spánskt fyrir sjónir að hv. þingmaður og þingmenn í hans flokki hafi ekki sýnt þann vilja í verki sem þeir þó segja út á við að þeir styðji.

Það er líka fróðlegt að rifja það upp að þessir sömu þingmenn felldu þrjú ár í röð tillögu Samfylkingarinnar um að lækka matarskattinn um helming þó að það væri hluti af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins. Síðan bregðast þeir loksins við á lokaspretti kjörtímabilsins og ætla að láta þær framkvæmdir taka gildi tveimur mánuðum fyrir kosningar. Því miður, herra forseti, finnst mér þetta ekki vera sérstaklega trúverðugt þegar við höfum einmitt dæmi og aðgerðir sömu þingmanna sem ganga þvert á það sem þeir hafa verið að boða og segja, bæði úr þessum ræðustól og annars staðar.