133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:18]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson var að frýja mig þess að ég hefði ekki greitt atkvæði með tillögum Samfylkingarinnar í vetur. Þá langar mig til að lesa ræðu sem ég flutti orðrétt 9. desember, með leyfi frú forseta:

„Ég hafði efasemdir um sykurskattinn. Nú liggja fyrir ágætar tillögur frá Samfylkingunni um að afnema hann. Því miður erum við búin að afgreiða fjárlög. Á það var bent í umræðunni í gær að fjárlögin mundu varla þola stóraukin útgjöld til aldraðra og öryrkja. Ég tel að fjárlögin séu þanin til hins ýtrasta og get því ekki fallist á tillögu Samfylkingarinnar um 800 millj. kr. lækkun á sykurskatti (Gripið fram í.) né 600 millj. kr. lækkun á lyfjaverði. (Gripið fram í.) En mér finnast tillögurnar ekki vitlausar. Þær eru ágætar en þær koma of seint. Svo er náttúrlega spurning um hvort risaskref ríkisstjórnarinnar þola svona viðbót.“

Þá er ég, frú forseti, að ræða um risaskref ríkisstjórnarinnar. Trekk í trekk allt kjörtímabilið hefur ríkisstjórnin verið að lækka skatta. Þetta er síðasta skrefið og auðvitað varð eitthvert skref að vera síðast. En ég tek undir með hv. þingmanni. Á næsta kjörtímabili höfum við tækifæri til að lækka öll vörugjöld eða fella þau alveg niður því að þau eru afskaplega dýr í framkvæmd og flækja allt kerfið mjög mikið, auka vinnu og gera ekkert annað en að valda kostnaði. Þetta er svo ástæðan fyrir því að ég greiddi atkvæði gegn þessu. Ég gat ekki verið svo óforsjáll að samþykkja eitthvað sem við erum nýbúin að samþykkja í fjárlögum að ekki væri pláss fyrir.