133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:23]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Ég held að hv. þingmaður ætti að fara varlega í að stæra sig af skattalækkunum. Hér hefur ítrekað verið staðfest, m.a. af hæstv. fjármálaráðherra, að skattbyrði, þ.e. sá hluti sem maður greiðir í skatt af tekjum sínum, allra tekjuhópa hafi þyngst í valdatíð þessarar ríkisstjórnar fyrir utan topp 10% hópinn. Hinir allra ríkustu hafa uppskorið minni skattbyrði í tíð þessarar ríkisstjórnar. Allir hinir hóparnir hafa þurft að þola meiri skattbyrði.

Ég held að það sé líka nauðsynlegt að rifja það upp fyrir hv. þingmanni að ef við berum saman ríkissjóð núna og hvernig hann var þegar þessi ríkisstjórn tók við 1995 hefur ríkissjóður 160 milljörðum kr. meira á milli handanna á þessu ári en hann hafði 1995. (Gripið fram í.) Hvaðan koma þeir peningar? Þeir koma auðvitað frá almenningi og fyrirtækjum. (Gripið fram í.) Ríkissjóður lifir af tvenns konar tekjum, skatttekjum og þjónustugjöldum. (Gripið fram í.) Hér er svo augljóst að ríkið (Forseti hringir.) tekur æ stærri hluta af kökunni en það gerði áður.