133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

virðisaukaskattur.

558. mál
[16:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mér er kunnugt um að hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, er hér til staðar að minni ósk til að svara spurningum sem ég hyggst beina til hennar. Við erum að fjalla um frumvarp sem kveður á um lækkun gjalda á matvöru. Fram hefur komið að mest lækkun verður á gosdrykkjum og sykruðum drykkjum. Það er sú vara sem kemur til með að lækka mest með fyrirhuguðum lagabreytingum hinn 1. mars, nk. fimmtudag.

Þegar um þetta var fjallað í desembermánuði fengum við bréf frá Lýðheilsustöð, stofnun sem sett var á laggirnar í júlímánuði samkvæmt lögum frá Alþingi árið 2003. Sú stofnun heyrir undir heilbrigðisráðuneytið og hefur það lögbundna hlutverk með höndum að annast rannsóknir á sviði manneldismála, koma niðurstöðum rannsókna á því sviði á framfæri við þjóðfélagið og þá ekki síst stjórnvöld, þar með talið Alþingi.

Nú bregður svo við að sú stofnun fer mjög eindregið fram á það í erindi til Alþingis að fallið verði frá þeirri ákvörðun að lækka virðisaukaskatt og afnema vörugjöld af gosdrykkjum og sykruðum drykkjum og færir mjög góð og ítarleg rök fyrir því.

Í álitsgerð Lýðheilsustöðvar segir m.a., með leyfi forseta:

„Vert er að benda á að rannsóknir sýna að verðnæmi gosdrykkja er töluverð og verðlækkun þeirra hefur mest áhrif á neyslu þeirra þjóðfélagshópa sem almennt er erfitt að ná til með heilsuhvetjandi skilaboðum. Í því samhengi má nefna að unglingar eru mjög næmir fyrir verðbreytingum. Einnig ber að geta þess að næmni þeirra sem neyta mikils magns gosdrykkja er töluverð. Verðbreyting hefur hins vegar minni áhrif á þá sem drekka sykraða gosdrykki í hófi. Hér er því um að ræða aðgerð sem mun hafa neysluhvetjandi áhrif á unglingana okkar og þá sem nú þegar neyta mikils magns gosdrykkja.“

Þetta er erindi og álitsgerð sem kemur frá Lýðheilsustöð og felur í sér áskorun til Alþingis og stjórnvalda að falla frá þeim áformum. Sú breyting við frumvarpið sem ég hef talað fyrir er í þeim anda sem erindi Lýðheilsustöðvar lýtur að.

Í niðurlagi erindis Lýðheilsustöðvar til Alþingis segir síðan, með leyfi forseta:

„Þann 16. nóvember sl. var undirritaður í Istanbúl í Tyrklandi sáttmáli milli Evrópulanda og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, um baráttuna við aukna tíðni ofþyngdar og er Ísland aðili að þeim samningi. Í sáttmálanum eru stjórnvöld kölluð til ábyrgðar auk þess sem kallað er eftir enn meiri samstöðu og samvinnu milli allra hagsmunaaðila en verið hefur; opinberra aðila, iðnaðarins og einkamarkaðar, frjálsra félagasamtaka, einstaklinga og fjölskyldna. Því skýtur skökku við að á sama tíma skuli stjórnvöld hér á landi leggja til breytingar á sköttum og gjöldum sem leiða til lækkunar á verði sykraðra gosdrykkja og þar með væntanlega um leið aukinnar neyslu þeirra.“

Undir þetta skrifa forsvarsmenn Lýðheilsustöðvar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum mínum í fyrri ræðu minni en hér er komin hæstv. heilbrigðisráðherra. Undir ráðherrann heyrir Lýðheilsustöð sem skorar á Alþingi, og gerir það samkvæmt lögboðnum kvöðum sem á þeirri stofnun hvíla, að við föllum frá fyrirhugaðri skattalækkun á gosdrykkjum og sykruðum vörum.

Hverju svarar hæstv. ráðherra þessu til? Ætlar ráðherrann og ríkisstjórnin að hunsa ábendingar og áskoranir Lýðheilsustöðvar?