133. löggjafarþing — 79. fundur,  27. feb. 2007.

íslenska táknmálið.

630. mál
[17:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það vildi ég óska að ég gæti flutt ræðu mína á því fallega máli sem hún Sigurlín Margrét talaði úr ræðustólnum áðan en því miður get ég það ekki. Ég er ein þeirra 26 þingmanna sem flytja þetta mál með hv. þingmanni og ég verð að segja að ég er afar stolt af því. Ég hef fylgst með Sigurlín Margréti vinna þetta mál — (Forseti hringir.)

(Forseti (SAÞ): Ég beini því til hv. þingmanns að nota föðurnafn þingmannsins sem hún beinir máli sínu til.)

Hæstv. forseti. Ég bið afsökunar, hv. þingmaður heitir Sigurlín Margrét Sigurðardóttir og ég endurtek að ég vildi óska að ég gæti talað það sama mál og hv. þingmaður talar. Ég var að hæla henni fyrir það hversu vel hún hefur unnið frumvarpið. Ég sé líka ástæðu til að segja það hér að það hefur gríðarlega mikil áhrif á okkur þingmenn að horfa á hv. þm. Sigurlín Margréti Sigurðardóttur tjá sig á því máli sem þau frumvörp sem hún hér flytur fjalla um.

Ræða hennar var persónuleg, með dapurlegum frásögnum sem segja okkur staðreyndir um það hvernig samfélag okkar býr að fötluðu fólki. Við finnum vissulega til skömmustutilfinningar, við sem sitjum hér á Alþingi Íslendinga og teljum okkur vera að leggja grunn að öflugu velferðarsamfélagi. Svo kemur hv. þingmaður og sýnir okkur svo að óyggjandi er að okkur mistekst margt. Okkur hefur mistekist í málefnum heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra. Það er orðið löngu tímabært að við sem störfum á löggjafarsamkundunni tökum okkur tak í þessum efnum. Ég hvet til þess að hv. alþingismenn leggist nú allir á eitt með það að þessi frumvörp geti orðið að lögum fyrir vorið. Það er ekki langur tími til stefnu en við höfum haft þessi mál til skoðunar oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Við höfum fengið umsagnir um þau sem eru, ef ég man rétt, allar meira og minna á einn veg. Þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram kosta fjármuni en ekki þá fjármuni sem ríkur ríkissjóður okkar hefur ekki efni á að reiða fram. Ég hvet til þess að við hv. þingmenn skoðum það af alvöru hvort ekki sé hægt að koma þessum málum í gegn fyrir vorið. Það heyrir fyrst og fremst upp á stjórnarliða því að ríkisstjórnarmeirihlutinn ákveður hvaða örlög mál hljóta í meðferð þingnefnda.

Það er skammarlegt til þess að vita að 13 ára löng barátta, ég fer ekki aftar í tímann, markviss 13 ára barátta heyrnarlausra fyrir því að fá túlkaþjónustuna viðurkennda og fá fjármuni til hennar skuli ekki vera lengra komin en raun ber vitni. Við töldum að ákveðin vandamál hefðu verið leyst fyrir tæpum þremur árum þegar sjóðurinn sem hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir talaði um í ræðu sinni var settur á laggirnar. Nú heyrum við frá henni að hann var tómur í nóvember á fyrsta ári, og hann hefur ekki getað staðið undir eða mætt þörfum samfélags heyrnarlausra fyrir túlkaþjónustu. Það er alvarlegt í mínum huga að þær lausnir sem boðið hefur verið upp á í þessu tilliti skuli allar hafa verið með þeim brag sem hv. þingmaður lýsir, þær hafa allar verið bráðabirgðalausnir. Það er löngu orðið tímabært að linni í þessum efnum.

Það getur ekki verið að það vanti mikið upp á að þetta mál fái nægjanlegt brautargengi til að komast í gegn. Hér eru meðflutningsmenn úr öllum stjórnmálaflokkunum. Það vantar einungis 37 þingmenn upp á listann til að hér séu allir þingmennirnir sem sitja á löggjafarsamkundunni í dag. Hér eru 26 og það þýðir að 37 vantar til að gefa yfirlýsingu um stuðning við þetta mál. Ég treysti því og trúi að við getum komið að málum við þá í nefndarstarfi og tryggt að málið fái brautargengi.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir sagði í ræðu sinni að heyrnarlausir væru ekki lengur sá hógværi hópur sem löngum var nánast gleymdur. Ég þakka fyrir það að heyrnarlausir skuli ekki vera hógvær hópur. Heyrnarlausir eru baráttuhópur í samfélaginu sem við finnum fyrir, sem fjölmiðlar hafa tekið eftir og sem ég heyri og finn að öll þjóðin tekur eftir. Málefni heyrnarlausra eru okkur, þjóðinni, opin í gegnum fjölmiðla og í gegnum þá virku baráttu, þá kraftmiklu baráttu sem samfélag heyrnarlausra hefur rekið undanfarin ár. Þau hafa komið málefnum sínum afar vel á framfæri og kröfurnar eru að mínu mati réttmætar. Þær eiga einungis að tryggja þessum hópi aðgengi að samfélagi okkar. Til að þessir einstaklingar verði virkir þátttakendur í samfélaginu þurfa þau að hafa aðgengi að því. Þeirra aðgengi að samfélaginu liggur í gegnum táknmálið og túlkaþjónustuna. Það stendur upp á okkur að setja fjármagn í túlkaþjónustuna og það stendur upp á okkur að viðurkenna táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra. Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hefur lagt upp í hendurnar á okkur leiðina sem við þurfum að fara. Við þurfum að ganga þá leið sem hún hefur markað. Ég verð stolt af því ef við á Alþingi Íslendinga getum klárað þetta mál í vor með sóma.

Það er gaman að lesa fróðlega greinargerð með frumvarpinu. Þar er fróðleg grein eftir Svandísi Svavarsdóttur af Vísindavef Háskóla Íslands sem gefur okkur örlitla innsýn í það hvað táknmálið er auðugt mál, hvernig það er búið til og hvernig það er frábrugðið raddmálinu okkar. Bara það að lesa þær greinar sem eru skrifaðar í greinargerðina hjálpar upp á og fræðir okkur og sannfærir okkur enn betur um að hér er um sjálfsagt réttindamál að ræða. Við höfum tækifæri á Alþingi Íslendinga til að reka af okkur slyðruorðið núna í vor. Ég hvet til þess að við gerum það.